Framundan eru tveir viðburðir við Háskólasetrið á Blönduósi. Það er því gott tilefni til að vekja aðeins athygli á Háskólasetrinu og því sem þar fer fram.
Háskólasetrið er fræða- og þekkingarsetur á landsbyggðinni og starfar í tengslum við Hólaskóla – Háskólann á Hólum. Markmiðið með háskólasetrinu er að miðla og efla þekkingu á málefnum sem skipta máli fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Þetta er gert með rannsóknum, samvinnu og fræðslu.
Setrið er í samvinnu við háskóla, þekkingarsetur og aðrar stofnanir, bæði innan lands og utan. Fræði- og námsmönnum býðst að dvelja á setrinu og vinna að verkefnum tengdum loftslagsbreytingum, strandmenningu og/eða textílfræðum.
Sóst er eftir samvinnu við og hugmyndum frá heimamönnum, jafnt um daglega starfsemi, rannsóknarhugmyndir og framtíðaráætlanir.
Setrið býður einnig til opinna fyrirlestra. Á þeim hefur til dæmis verið fjallað um fiskveiðar í Íslendingasögunum og um áhrif loftslagsbreytinga á frumbyggja Alaska.
Háskólasetrið tekur þátt í Sögulegri safnahelgi á Norðurlandi vestra um næstu helgi. Opið hús verður í Kvennaskólanum kl. 13:00 – 17:00 laugardaginn 8. október. Sjá nánar á www.huggulegthaust.is .
Sunnudaginn 16. október er svo komið að vígslu Þórsstofu. Við það tækifæri mun Dr. Þór Jakobsson flytja erindi og opið verður í setrinu kl. 13:00 – 17:00.