Háskólinn á Hólum er nú í viðræðum við Háskóla Íslands um aukið samstarf og mögulega sameiningu, en viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð í ágúst sl. Í viðræðunum er sérstaklega litið til þess með hvaða hætti er hægt að efla starfsemi skólans í sínu nærsamfélagi, hvort sem um er að ræða á Hólum eða í sveitarfélaginu Skagafirði. Í samvinnu við Háskólann á Hólum hefur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið unnið að greiningu starfseminnar og þarfa skólans fyrir bætta aðstöðu og gagnsærri rekstur og hafa ráðuneytið og skólinn nú gert með sér viljayfirlýsingu til að treysta starfsemi skólans. Yfirlýsinguna undirrita Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum.

Uppbygging aðstöðu fyrir fiskeldisfræði og hestafræði

Stærstur hluti viljayfirlýsingarinnar snertir húsnæðismál og uppbyggingu háskólans. Í þessu felst að unnið verði að aðstöðu fyrir Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum á grundvelli þarfagreiningar háskólans og vilyrðis Skagafjarðar fyrir lóð undir starfsemina á Sauðárkróki, en skólinn hefur einn háskóla á landinu haldið úti rannsóknum og kennslu á sviði lagareldis. Áætlað er að fyrsti áfangi verði tilbúinn næsta sumar og leggur ráðuneytið allt að 130 m.kr. til verkefnisins. Þá verður leitast við að selja bleikjueldisstöðina Hólalax.

Háskólinn á Hólinn hefur lengi staðið framarlega í hestafræðum og segir í viljayfirlýsingunni að athugun á fýsileika þess að kaupa Brúnastaði að Hesthólum ehf. fyrir starfsemi námsbrautar í hestafræði fari fram. Auk þess verði vinna hafin við sameiginlegt húsnæði Hestafræðideildar og Ferðamáladeildar á Hólum. Ráðuneytið mun leggja til allt að 20 m.kr. framlag vegna þessa verkefnis.

Lausnir á húsnæðismálum forsenda sameiningar

Á grundvelli sameiginlegrar viljayfirlýsingar Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum er nú unnið að sameiningu skólanna undir hugmyndafræði um háskólasamstæðu. Mikilvæg forsenda þess að af slíkri sameiningu geti orðið er að unnið verði að lausnum húsnæðismálum Háskólans á Hólum. Viljayfirlýsing um öflugri starfsemi skólans kveður á um að Framkvæmdasýsla ríkisins framkvæmi heildstæða úttekt og greiningu á húsnæðisþörf Háskólans á Hólum og að gert verði ráð fyrir niðurstöðu úttektarinnar í næstu fjármálaáætlun. Einnig verði skoðað að nýta söluvirði Hólalax og annarra eigna til byggingu nýs húsnæðis fyrir skólann.

Mikilvægt hlutverk Háskólans á Hólum

Utan húsnæðismála koma í viljayfirlýsingunni fram áherslur á sjálfstæðan fjárhag háskólans og viðræður við sveitarfélagið Skagafjörð. Þannig verður leitast við að aðgreina fjárhag skólans og tengdra stofnana frá óskyldum viðföngum á Hólastað. Samhliða því verði fundinn farvegur fyrir staðarhald á þjóðmenningarstaðnum Hólum í Hjaltadal. Loks er áhersla lögð á að vinna að áframhaldandi mikilvægi Háskólans á Hólum í nærsamfélagi í góðri sátt við Skagafjörð, en áætlað er að hefja viðræður við sveitarfélagið um aðkomu þess að frekari framþróun þéttbýlis á Hólum í samspili við framtíðarfyrirkomulag staðarhalds þar.