Laugardaginn 3. júní kl. 14:00 opnar sýningin Var í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði með nýjum verkum Haraldar Jónssonar. Sýningin stendur til 18. júní og er opin daglega frá kl. 14.00 – 17.00.
Verkin eru unnin í ólíka miðla og virkja staðhætti á ýmsa lund; bæði Kompuna sjálfa og útisvæðið umhverfis Alþýðuhúsið. Á opnuninni verður athöfn þar sem gestum gefst kostur á að opna brjóstvasann og mynda jarðsamband. Verksummerkin verða órjúfanlegur þáttur í vistkerfi og anda staðarins.

Haraldur Jónsson vinnur jöfnum höndum í ýmsa miðla. Verk hans hafa ávallt sterka vísun í nánasta umhverfi okkar með marglaga og leikandi tengingum við líkamann, skynjunina, tilfinningar, tungumálið og því sem myndast í bilunum þar á milli. Haustið 2018 var yfirlitssýningin Róf opnuð á Kjarvalsstöðum með verkum frá þrjátíu ára ferli hans og sumarið 2019 var hann tilnefndur Borgarlistamaður Reykjavíkur. Í maí opnaði einkasýning hans Enjeux í Appart_323 í París og mun hún standa til hausts.
Sýningin Var í Kompunni gefur góða mynd af höfundarverki hans.
Fjallabyggð, Uppbyggingasjóður, Eyrarrósin, Aðalbakarinn og Kjörbúðin styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu.