Hallgrímur Helgason sýnir ný málverk í Kompunni, í Alþýðuhúsinu á Siglufirði frá 3. ágúst til 1. september 2024.  Sýning hans í Kompu er ein af fjórum sem hann heldur á þessu ári. Hallgrímur er þekktur fyrir skáldsögur sínar og skrif en hefur einnig sýnt myndlist víða um lönd, á einka- og samsýningum. Hann hefur nær eingöngu haldið sig við málverk og teikningar á löngum ferli og á verk í eigu safna hérlendis og erlendis. Þar á meðal eru FRAC-Poitou Charentes í Angouleme í Frakklandi og Metropolitan-safnið í New York.  Á útmánuðum sýndi hann Hópmyndir af sjálfi í listamiðstöðinni Nordatlantens brygge í Kaupmannahöfn. Hluti þeirrar sýningar verður settur upp í Nordatlantisk hus í Óðinsvéum í lok ágúst. Og í október opnar miðferlis-yfirlitssýning hans í Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalsstöðum.
Á sýningunni eru ný málverk sem öll eru portrett af stjórnmálafólki og þjóðarleiðtogum vorra daga og spanna skalann frá Pútín til Biden. Allt þetta stjórnmálafólk verður dæmt af samstöðu sinni með þjóðarmorðunum tveimur. Allt er það Stríðsfórnarlömb.
Þetta er fyrsta sýning Hallgríms á Siglufirði en hann hefur á undanförnum árum dvalið þar í bókmenntaheimi sínum í Sextíu kílóa sögu sinni. Verkin eru öll unnin á þessu ári, máluð í Hrísey og Reykjavík, upp úr fréttaljósmyndum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alþýðuhúsinu.