Halla Tómasdóttir hefur verið kjörin forseti Íslands.

Halla er alin upp á Kársnesi í Kópavogi og á ættir að rekja til Skagafjarðar og Vestfjarða. Hún er frumkvöðull og rekstrarhagfræðingur, með meistaragráðu. Hún hóf starfsferil sinn í Bandaríkjunum hjá fyrirtækjunum Mars og Pepsi Cola. Halla kom að uppbyggingu Háskólans í Reykjavík þar sem hún stofnaði og leiddi meðal annars Opna háskólann.

Halla hefur ávallt haft brennandi áhuga á forystu og frumkvöðlastarfsemi og hefur kennt þúsundum nemenda á öllum aldri. Hún varð fyrst kvenna framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs vorið 2006. Ári síðar stofnaði Halla ásamt Kristínu Pétursdóttur fjármálafyrirtækið Auður Capital. Fyrirtækið lagði áherslu á ábyrgar fjárfestingar og að skila hagnaði á grunni góðra gilda. Auður Capital og viðskiptavinir þess fóru tjónlaust gegnum efnahagshrunið árið 2008. Halla kom í kjölfarið að stofnun Mauraþúfunnar sem hélt Þjóðfund árið 2009. Hjá Mauraþúfunni vann slembiúrtak þjóðarinnar að sameiginlegri framtíðarsýn og gildum.

Halla hefur síðastliðin sex ár verið forstjóri B Team þar sem hún starfar á heimsvísu að sjálfbærni, jafnrétti og ábyrgð í forystu. B Team vinnur með fyrirtækjastjórnendum og stjórnmálaleiðtogum að bættu siðferði. Einnig eru ríkar áherslur lagðar á réttlát og gagnsæ viðskipti og efnahag.

Halla er vinsæll alþjóðlegur fyrirlesari og hefur meðal annars stigið fjórum sinnum á TED-sviðið, ásamt því að halda fyrirlestra fyrir stærstu fyrirtæki heims.

Halla er gift Birni Skúlasyni. Björn er alinn upp í Grindavík og á ættir að rekja á Norðurland, Austurland og Suðurland. Hann spilaði fótbolta samhliða háskólanámi í Bandaríkjunum og lauk síðar meistaragráðu í stjórnunarsálfræði í Bretlandi. Hann starfaði um árabil í tryggingar- og fjármálafyrirtækjum, áður en hann venti kvæði sínu í kross og fór í heilsu kokkanám. Í dag rekur hann eigið fyrirtæki, sem nefnist just björn, en það framleiðir og markaðssetur norrænar náttúru- og heilsuvörur.

Halla og Björn eiga tvö börn, sem bæði eru í háskólanámi í New York. Tómas Bjartur stundar þar nám í viðskiptafræði og spilar fótbolta og Auður Ína nemur sálfræði.