Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri Fjallabyggðar hyggst leggja fram tillögu til aðalfundar Eyþings sem haldinn verður 21. – 22. september nk. um að fjölga fulltrúum í stjórn Eyþings úr sjö í níu. Með því móti eiga fjölmennustu sveitarfélögin stjórnarmenn í stjórn Eyþings að staðaldri en þegar fulltrúar sveitarfélaga sitja ekki í stjórn koma þeir takmarkað að umræðu og ákvörðunartöku innan Eyþings og ábyrgð stjórnar er óljós. Fundir í fulltrúaráði Eyþings eru sjaldgæfir og samskipti við þau sveitarfélög sem ekki eiga fulltrúa í stjórn eru af skornum skammti.

Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð hafa hingað til skipst á að skipa fulltrúa í stjórn Eyþings í tvö ár í senn. Verði tillagan samþykkt á aðalfundi Eyþings skipa sveitarfélögin sinn fulltrúann hvort.