Grunnskóli Fjallabyggðar keppti í kvöld í riðli 2 í Skólahreysti, en í riðlinum eru skólar frá Norðurlandi. Liði Grunnskóla Fjallabyggðar gekk vel í flestum þrautum og voru aðeins hálfu stigi frá 1. sæti riðilsins, liðið sótti 46,5 stig og endaði í 2. sæti á eftir Lundarskóla sem var með 47 stig. Dalvíkurskóli var með 43 stig í 3. sæti.

Hraðaþraut, hreystigreipi og armbeygjur voru bestu þrautir kvöldsins fyrir Grunnskóla Fjallabyggðar en liðið náði 2. sæti í öllum þeim greinum. Liðinu gekk ekki eins vel í dýfum og upphýfingum og var því 2. sætið staðreynd.

Ótrúlega flottur árangur hjá liðinu í ár, en skólinn lenti í 3. sæti í sínum riðli í fyrra.