Greifarnir sem hafa verið ein allra ástsælasta hljómsveit landsins frá árinu 1986 fagna 25 ára starfsafmæli með tónleikum í Hofi þann 8. október kl. 20.
Á efnisskrá tónleikana verða flest vinsælustu lög Greifana og einnig nokkur sem ekki eru jafn þekkt en í sérstöku uppáhaldi hjá drengjunum sjálfum.
Felix Bergson sem var fyrsti forsöngvari Greifana mun svo mæta aftur eftir langa fjarveru og taka nokkur lög með sínum gömlu félögum. Felix tók lagið með Greifunum á Mærudögum á Húsavík í sumar við frábærar undirtektir þeirra sem heyrðu og sáu.
Stórsöngvarinn Óskar Pétursson verður einnig gestur þetta kvöld og mun sveipa tónlist Greifanna klassískum blæ.
Sagan
Gulli Helga útvarps og sjónvarpsmaðurinn góðkunni verður sérstakur kynnir og sögumaður á tónleikunum. Hann mun grípa niður hér og þar í sögu Greifanna með aðstoð gamalla myndbanda og ljósmynda og varpa skemmtilegu ljósi á ýmislegt í langri sögu sveitarinnar. Gulli var einmitt kynnir á Músíktilraunum þegar Greifarnir sigruðu árið 1986.
Stórsveit
Greifarnir munu njóta aðstoðar fleiri hljóðfæraleikara og bakraddasöngkvenna sem saman munu gefa lögum þeirra meiri dýpt og þéttleika.
Greifarnir, fyrstu 25 árin
Nýja Greifasafnið verður til sölu á tónleikunum á góðum kjörum og geta þeir sem kaupa fengið áritun frá Greifunum eftir tónleika.