Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Hetti/Huginn í 18. umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla. Nú þegar aðeins 5 umferðir eru eftir af mótinu þá er hvert stig og sigur dýrmætur í fallbaráttunni. KF er tveimur stigum frá fallsæti og sigur eða jafntefli færir liðið enn fjarri þeirri baráttu.  Það eru ChitoCare Beauty og Siglufjarðar apótek sem eru aðalstyrktaraðilar að allri umfjöllun um KF í sumar.

Upphitun:

Eftir 17 umferðir þá er KF með nákvæmlega jafnmörg stig og liðið var með í deildinni í fyrra á sama tíma. Þá hafði liðið aðeins unnið 4 leiki og gert 6 jafntefli en tapað 7 leikjum. Í dag hefur liðið unnið 6 leiki sem er jafnmikið og liðið gerði allt mótið í fyrra, en ekki gert neitt jafntefli en tapað 11 leikjum. Deildin er jöfn og spennandi í ár, mikil barátta á toppnum hjá 5 liðum og fallbaráttan mikil hjá neðstu 5 liðunum. KV með lakastan árangur en Sindri er með 16 stig í fallsæti og töpuðu þeir leiknum í 18. umferðinni og var því ljóst að KF færi ekki í fallsæti ef þeir myndu ekki sækja stig í þessum leik. Völsungur og Haukar unnu  bæði sína leiki í þessari umferð og voru því 4 stig á milli KF og Völsungs.

Halldór Ingvar þjálfari var aftur kominn í markið hjá KF í fjarveru Javon Sample sem hefur verið í fæðingarorlofi. Sito og Ljubomir Delic voru óvænt á bekknum þegar leikurinn hófst. Eduardo Cruz og Akil voru í byrjunarliði en þeir hafa verið fjarverandi vegna meiðsla, en mikill styrkur að hafa þá báða í liðinu enda reynslumestu leikmenn liðsins. Jordan var mættur í liðið aftur eftir leikbann í síðasta leik.

Höttur/Huginn (HH) fengu nokkra leikmenn í félagskiptagluggunum í júlí, en liðið er í 7. sæti í deildinni og aðeins tapað 1 leik af síðustu 5 í deildinni. Liðið gat komst í 4.-5. sæti með sigri í þessum leik.

Höttur vann báða leikina gegn KF á Íslandsmótinu í fyrra.

Umfjöllun:

Frítt var inná völlinn en heimamenn freistuðu þess að sækja öll stigin með stuðning úr stúkunni. KF vann fyrri leikinn 3-1 í sumar og vildu einnig sækja góð úrslit hérna á Vilhjálmsvelli. Það var skýjað og 10 stiga hiti þegar leikurinn hófst og 7m/s vindur. Dæmigert haustveður en völlurinn fallegur. Heimamenn stilltu upp í 4-2-3-1, með tvo djúpa miðjmenn fyrir framan vörnina og þrjá framliggjandi miðjumenn og einn á toppnum.

Sævar Þór Fylkissons gerði fyrsta mark leiksins fyrir KF á 23. mínútu í fyrri hálfleik. Hans 7. mark í deildinni í sumar. Tíu mínútum síðar jöfnuðu heimamenn. Staðan var 1-1 í hálfeik.

Heimamenn byrjuðu af krafti í síðari hálfleik og skoraði Tete á 57. mínútu og kom þeim í 2-1 þegar tæpur hálftími var eftir.

KF var ekki lengi að jafna og skoraði tveimur mínútum síðar, staðan 2-2. Það var Akil De Freitas sem gerði markið og var það hans þriðja í sumar í deildinni. Strax eftir jöfnunarmarkið gerði KF tvöfalda skiptingu og fór Sitó og Ljuba inná fyrir Akil og Marinó Snæ. Nú átti að freista þess að skora þriðja markið.

Þorsteinn Már kom kom inná fyrir Vitor á 79. mínútu hjá KF. Á fimmtu mínútu í uppbótartíma gerði KF eina skiptingu og kom þá Jón Frímann inná fyrir Grétar Áka fyrirliða. Mikil spenna var í lokin en uppbótartíminn var ansi langur.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum lauk honum með 2-2 jafntefli. Var þetta fyrsta jafntefli KF í sumar í deildinni og mikilvægt stig.

Núna er KF með þrjú stig á Sindra þegar fjórir erfiðir leikir eru eftir.

 

Það eru tveir frábærir styrktaraðilar sem gera okkur kleyft að halda úti öflugri íþróttaumfjöllun í Fjallabyggð og styðja nú við umfjöllun um alla leik KF í deild og bikar í sumar.

Takk Siglufjarðar Apótek og ChitoCare beauty.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Styrktaraðilar: