Matthías Örn Friðriksson stóð uppi sem sigurvegari í A-deild á fyrsta Fiskidagsmótinu í pílu á Dalvík á miðvikudagskvöldið. Hann sigraði Edgar Kede Kediza í úrslitaleik og í þriðja sæti var Óskar Jónsson.

Sigurður Jóhann Sölvason sigraði Maron Björgvinsson í úrslitaleik B-deildar og í þriðja sæti var Sveinn Brimar.

Þrír efstu menn í hvorri deild voru leystir út með bikar, fiski frá Samherja, diski með Fiskidagstónleikum og bók um Fiskidaginn mikla.

Pílumótið var í húsakynnum Pílufélags Dalvíkur í gamla frystihúsi Samherja á Dalvík og heppnaðist í alla staði framar vonum og væntingum. Hámarksfjöldi keppenda var 32 og komust færri að en vildu. Í röðum keppenda voru að sjálfsögðu heimamenn í Dalvíkurbyggð en einnig mættu pílukastarar frá Akureyri, Reykjavík, Grindavík og Sauðárkróki, sumir þeirra í fremstu röð í greininni á landinu. Það var vefur Fiskidagsins mikla sem greindi frá þessu á síðu sinni ásamt meðfylgjandi viðtali og mynd.

Pílufélag Dalvíkur slítur barnsskóm

Pílan er ung íþróttagrein á landsvísu og raunar á barnsaldri sem slík en engin íþróttagrein er í örum vexti og einmitt pílan. Og vel að merkja, pílan var tiltölulega nýlega viðurkennd sem íþróttagrein og Pílusamband Ísland tekið inn í Íþróttasamband Íslands.

Pílufélag Dalvíkur var stofnað núna vorið 2023, um það leyti sem tekin var í gagnið glæsileg aðstaða pílukastara í gamla frystihúsinu. Í hópi hvatamanna verkefnisins var Sigurður J. Sölvason, B-deildarsigurvegari Fiskidagsmótsins.

„Ég spilaði pílu þegar ég bjó fyrir sunnan en lét duga að kasta pílu í bílskúrnum eftir að ég flutti til Dalvíkur. Hér var hvorki formlegur félagsskapur né aðstaða til æfinga og keppni. Svo fóru hlutir að gerast og ég rek upphafið ekki síst til Ólafsfirðingsins Jóns Sæmundssonar. Hann kom að máli við mig og við boðuðum til fundar í desember til að kanna áhuga manna á að stíga næstu skref.

Í framhaldinu þreifuðum við árangurslaust fyrir okkur um húsnæði þar til Samherji bauð hluta af gamla frystihúsinu til afnota og varð þar með helsti bakhjarl starfseminni. Garðar smiður Jónsson var lykilmaður í sjálfum framkvæmdunum í frystihúsinu og snemmsumars 2023 höfðum við eignast bæði félag og glæsilega aðstöðu!

Framundan er að byggja félagsskapinn og íþróttagreinina upp frá grunni, bókstaflega talað. Á komandi vetri leggjum við áherslu á barna- og unglingastarf og ætlum að gera píluna að íþrótt sem eftir verður tekið í héraðinu og utan þess.

Við höfum nú þegar nokkra frambærilega spilara í okkar röðum, til dæmis Maron Björgvinsson, fæddan 2008. Hann lætur strax finna fyrir sér í pílukeppni og er ekki einhamur í íþróttum – æfir líka og keppir á skíðum hér heima og fótbolta með KA á Akureyri. Framtíð pílunnar er björt í Dalvíkurbyggð.“