Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar Fjallabyggðar fyrir árið 2024 gera ráð fyrir að rekstrartekjur nemi 4.338 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B-hluta, þar af eru rekstrartekjur A hluta áætlaðar 3.560 m.kr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða og afskrifta eru áætluð 4.059 m.kr., þar af A-hluti 3.424 m.kr. Óvissa er í kringum launakostnað í áætlunni þar sem kjarasamningar eru lausir í lok mars á næsta ári. Þá hækka sorphirðugjöldin vegna nýrra laga úr 51.600 kr. í 73.700 kr. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Fjallabyggð.

Rekstrarhagnaður A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 279 m.kr. Afskriftir nema 213 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur 10 m.kr. Rekstrarafgangur samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætlaður samtals 56 m.kr. Rekstrarhagnaður A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 136 m.kr. Afskriftir nema 155 m.kr. Fjármagnstekjur umfram fjármagnsgjöld nema 18,7 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð neikvæð um 550 þúsund kr.

Eignir Fjallabyggðar eru áætlaðar í árslok 2024, 6.982 m.kr., þar af eru eignir A-hluta 6.224 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 2.556 m.kr. Þar af hjá A-hluta 2.662 m.kr. Eigið fé er áætlað 4.415 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall 63,2%. Eigið fé A-hluta er áætlað 3.581 m.kr. og eiginfjárhlutfall 57,4%.
Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 297 m.kr. Veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 429 m.kr.

Skuldaviðmið Fjallabyggðar samkvæmt reglugerð 502/2012 verður samkvæmt áætlun 24,7%.
Framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir 329 m.kr. fjárfestingum.

 

Framlögð áætlun byggir á eftirfarandi meginforsendum:

  1. Útsvarsprósenta er óbreytt milli ára þ.e. 14,70%.
  2. Hækkun útsvarstekna er áætluð 7%.
  3. Álagningarhlutföll fasteignaskatta, lóðarleigu, vatns- og fráveitugjalda eru óbreytt milli ára.
  4. Sorphirðugjöld hækka í kr. 73.700 úr kr. 51.600 kr. í kjölfar nýrra laga um úrgangsmál sem tóku gildi á árinu, með breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, meðhöndlun úrgangs og úrvinnslugjalds.
  5. Þjónustugjöld hækka um áætlaða verðlagsþróun þ.e. 6%.
  6. Varðandi launakostnað er talsverð óvissa þar sem flestir kjarasamningar eru lausir í lok mars. En í áætluninni er tekið mið af gildandi kjarasamningum auk þess sem gert er ráð fyrir 6% hækkun á launum að jafnaði.
  7. Afsláttur af fasteignaskatti hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum hækkar, og verður að hámarki kr. 90.000.
  8. Tekjumörk fyrir afslætti hækka í samræmi við launavísitölu.
  9. Frístundastyrkur fyrir börn á aldrinum 4 ára til 18 ára hækkar í kr. 47.500 úr kr. 45.000.