Fjölmenni var á kynningarfundi frumkvöðla- og nýsköpunarfélagsins Driftar EA, sem haldinn var í menningarhúsinu Hofi á Akureyri á fimmtudaginn.

Stofnendur Driftar EA eru frændurnir Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson en á síðasta ári voru liðin 40 ár frá því gengið var frá kaupum á Samherja hf. og starfsemin hafin á Akureyri. Drift EA var stofnað í tilefni þeirra tímamóta og í þakklætisskyni við íbúa og fyrirtæki á starfssvæði Samherja.

Félagið er óhagnaðardrifin sjálfseignarstofnun með það að markmiði að byggja upp frumkvöðla- og nýsköpunarstarf á Eyjafjarðarsvæðinu. Tilgangurinn með stofnun félagsins er að gefa til baka til samfélagsins en um leið skapa tækifæri og byggja upp atvinnugreinar á Eyjafjarðarsvæðinu.

Drift EA verður með aðsetur í gamla Landsbankahúsinu við Ráðhústorg á Akureyri en fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf., sem er að hluta til í eigu sömu aðila, festi kaup á húsnæðinu í lok árs 2022. Unnið hefur verið að gagngerum endurbótum húsnæðisins, þannig að það þjóni sem best metnaðarfullri starfsemi Driftar EA.

Á fundinum voru áherslur Driftar EA kynntar fulltrúum fræðanets, fyrirtækja og sveitarstjórna. Jafnframt var merki Driftar EA kynnt og samfélagsmiðlar félagsins opnaðir. Vandað hefur verið til alls undirbúnings og haft samráð við innlenda og erlenda aðila á ýmsum sviðum nýsköpunar.

Stofnendur hafa þegar lagt fram 200 milljónir króna í stofnframlag og munu þeir tryggja rekstur félagsins með fjárframlögum næstu fimm ár.

 

Kristján Vilhelmsson:
„Við frændur höfum lengi haft ómótaðar hugmyndir um að gera eitthvað nýtt fyrir komandi kynslóðir. Sýnin varð skarpari þegar gott verkfæri bauðst, frábært húsnæði sem héldi utan um starfsemi hugmyndarinnar. Það er hið fallega Landsbankahús við Ráðhústorg. Við köllum nú eftir samstarfi við sem flest fyrirtæki og einstaklinga um þetta mikilvæga verkefni.“

 

Þorsteinn Már Baldvinsson:
„Drift EA er ætlað að blása til nýrrar sóknar og veita frumkvöðlum aðstöðu, faglega ráðgjöf og fjárstuðning, með það að markmiði að auka verðmætasköpun og ýta undir vöxt atvinnulífsins. Þetta tel ég geta orðið gott tækifæri fyrir ungt og kraftmikið fólk til að búa hér á svæðinu og starfa. Við frændur finnum fyrir ríkum áhuga atvinnulífsins á þátttöku, nýsköpun er nauðsynleg til áframhaldandi uppbyggingar.“

 

Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir framkvæmdastýra:
„Drift EA verður brúarsmiður milli fyrirtækja, frumkvöðla og fræðanets. Það þarf að nýta alla þá þekkingu og reynslu sem er á svæðinu til að efla hugvit og hvetja fólk til að hugsa stórt. Við höfum allt í þetta ef við leggjumst öll á árarnar.“

 

Stjórn Driftar EA skipa:
Kristján Þór Júlíusson, formaður
Edda Lára Lúðvígsdóttir,
Arnar Árnason.