Í gær var tilkynnt val á íþróttamanni-, liði- og þjálfara Skagafjarðar fyrir árið 2018 við hátíðlega athöfn. Einnig voru veitt hvatningarverðlaun UMSS og viðurkenningar fyrir þátttöku í landsliðum og þjálfara aðildarfélaga UMSS.

Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir frjálsíþróttakona var valin íþróttamaður Skagafjarðar, meistaraflokkur Tindastóls í knattspyrnu kvenna lið ársins og Sigurður Arnar Björnsson þjálfari í frjálsum íþróttum þjálfari ársins.

Þóranna bætti sinn fyrri árangur og skagfirska héraðsmetið í hástökki um 5 cm í sumar, stökk 1,77m, sem er besti árangur íslenskrar konu í greininni í 5 ár.  Þá varð hún Íslandsmeistari bæði í flokkum 20-22 ára og fullorðinna. Hún keppti fyrir hönd Íslands á Evrópumóti smáþjóða í Liectenstein (3. sæti) og Norðurlandameistaramótinu í Svíþjóð (5. sæti).

Þóranna hlaut þennan sæmdartitil einnig árið 2015.

Sigurður Arnar Björnsson, aðalþjálfari Frjálsíþróttadeildar Tindastóls, var valinn þjálfari ársins, en hann hefur einnig starfað í þjálfarateymum íslenska landsliðsins.

Hvatningarverðlaun, sem veitt eru unglingum 12-17 ára, hlutu frá Frjálsíþróttadeild Tindastóls: Andrea Maya Chirikadzi og Hákon Ingi Helgason.

Viðurkenningar fyrir landsliðsþátttöku, hlutu frá deildinni: Jóhann Björn Sigurbjörnsson, Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir og Sigurður Arnar Björnsson.

Mynd: Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir með titilinn 2015.