Sigló Ski Lodge nýtt ferðaþjónustufyrirtæki á Siglufirði. Fyrirtækið mun bjóða uppá þjónustu við afþreyingu í útivist og leiðsögn allan ársins hring. Siglo Ski Lodge mun hefja starfsemi í sumar við að bjóða uppá ferðir og leiðsögn og er stefnt að opna gistiþjónustu árið 2018. Héðinsfjörður.is hafði samband við forráðamenn fyrirtækisins og fékk svör við nokkrum spurningum.
Hvernig afþreyingu og þjónustu munu þið veita?
Við munum bjóða uppá þá afþreyingu sem okkur þykir vanta framboð á og þar sem við teljum okkur hafa sérþekkingu en einnig viljum við efla tengslanet við aðra rekstraraðila í Fjallabyggð og kynna þeirra þjónustu og sýna þannig þá möguleika og þann fjölbreytileika sem svæðið hefur uppá að bjóða. Þetta verður því áfangastaður, miðstöð og upplýsingamiðlun fyrir náttúruunnendur. Með okkar reynslu og kunnáttu í bland við þekkingu heimamanna og með samstarfi erum við spennt fyrir möguleikunum sem Tröllaskaginn sem náttúruparadís hefur uppá að bjóða.
Hverjir eiga Sigló Ski Lodge og hvaða bakgrunn hafið þið?
Eins og er samanstendur teymið af okkur þremur (Erla Jóhannsdóttir, Steve Lewis og Gestur Þór Guðmundsson). Okkar reynsla samanlögð er innan ferðaþjónustu og felst í ævintýra- og fjallaleiðsögn, bæði á Íslandi og á Svalbarða, uppbyggingu (sölu, markaðssetningu, vöruþróun, starfsmannahald og skipulagi) hinna ýmsu ferðaþjónustu fyrirtækja bæði í Reykjavík, Skaftafelli og á Svalbarða. Hugsanlegt er að fleira gott fólk gangi til liðs við okkur en öll eigum við það sameiginlegt að hafa heillast af Fjallabyggð, flúið höfuðborgina og sest þar að.
Hvar verður gistingin og hvernig verður henni háttað?
Gististaðurinn verður á Siglufirði en eins og staðan er get ég ekki gefið upp hvar nákvæmlega því það hefur ekki enn verið gengið frá þeim kaupum og því ekki staðfest.
Gistingin og þjónustan verður í boði allan ársins hring og er það liður í að skapa meira jafnvægi í dreifingu heimsókna og tekjuöflun.
Það verður svo hægt að bóka gistingu og ferðir bæði á booking.com, okkar eigin heimasíðu(sigloskilodge.is) og fleiri síðum.
Þetta verður hvorki heimagisting né Airbnb en meira í líkingu við skíðaskála sem finnast í Ölpunum og starfa allan ársins hring.
Fyrir hverja er þessi þjónusta hugsuð?
Þjónustan er hugsuð bæði fyrir Íslendinga og erlenda gesti og þá sérstaklega þá sem hafa hug á að stunda útivist og afþreyingu á ferðalagi sínu.