Ida Semey og Bjarni Guðmundsson

Fréttamaður síðunnar hafði samband við nýja eigendur af Kaffihúsinu Klöru og Gistihúsi Jóa nýverið og vildi fá upplýsingar um nýja reksturinn og innsýn inn í þær hugmyndir og útfærslur sem þau hjónin Bjarni Guðmundsson og Ida Semey ætla að bjóða gestum uppá.

Bjarni og Ida hafa tekið við Kaffi Klöru og Gistiheimili Jóa sem staðsett er í gamla pósthúsinu í Ólafsfirði. Þetta er sögufrægt hús á frábærum stað í bænum sem gert var upp árið 2013 og innréttað sem kaffihús og gistiheimili. Eigenda skipti urðu 1. mars 2016.

“Það er mikil gleði fólgin í því að hefja nýjan rekstur, og spennandi verkefni, ekki síst í ljósi þess hversu vel fólk hefur tekið ákvörðun okkar um að gerast kaffi- og gistihúsaeigendur hér í Ólafsfirði.” – Segir Ida.

Markmið Bjarna og Idu er að bjóða gestum upp á notalegt gistihús og kaffihús sem gott er heim að sækja. Gistihús Jóa er staðsett á efri hæð „gamla pósthússins“, þar eru 6 herbergi og 2 baðherbergi. Gistihúsið tekur 12-13 manns í gistingu. Hægt að bóka gistingu á www.booking.com en einnig má hafa samband til að kanna verð og tilboð fyrir smærri hópa.

Á kaffihúsinu á 1. hæð hússins er haldið í útlitið sem fyrir var, það er bæði notalegt og heimilislegt. Eigendurnir vilja fyrst og fremst skapa matarupplifun á Kaffi Klöru og kítla bragðlauka gesta með tapas, smørrebrød, gómsætum kökum, smurðu brauði, réttum með alþjóðlegu ívafi, “local food”, góðu kaffi og eðalte, kranabjór frá Segull 67 og léttvín. Lögð er áhersla á að nota gott hráefni úr héraði, að maturinn sé eldaður sem mest frá grunni, að hann sé einfaldur, vandaður og bragðgóður þar sem lykilatriðið er að hlúa vel að matnum og gestum okkar.

Kaffi Klara verður ekki með neinn fastan matseðil þó svo að sumir réttir hafi þegar fest í sessi. Þau ætla láta matseðilinn þróast í sumar í takt við upplifun gesta og hvaða hráefni hægt verður að útvega á svæðinu. Einnig vilja eigendurnir bjóða smærri hópum upp á að geta borðað á Kaffi Klöru og eldað einfaldan og góðan mat fyrir gesti eftir pöntun, hvort sem það séu ferðamenn, fjölskyldur, samstarfsfólk, saumaklúbbar, eða félagasamtök. Í sumar er stefnt af því að hafa lengur opið um helgar og ef vel viðrar að grilla úti.

Á kaffihúsinu hefur verið ákveðið að leyfa listamönnum úr Fjallabyggð að sýna listaverk sín og hafa listaverk eftir listakonuna Garúnu verið til sýnis yfir Páskana. Núna er til sýnis leirlistaverk eftir Hófý.

Bjarni og Ida hlakka mjög mikið til að taka á móti gestum á kaffihúsinu. Þau halda úti facebooksíðu þar sem eru reglulega gefnar upplýsingar og fréttir.

Gistihús Jóa
Kaffi Klara