Golfklúbbur Fjallabyggðar í nærmynd

Fréttamaður Héðinsfjarðar.is hafði samband við forráðamenn hjá Golfklúbbi Fjallabyggðar í vor og vildi forvitnast nánar um starfið hjá þeim. Klúbburinn starfar í Ólafsfirði og heitir völlurinn þeirra Skeggjabrekkuvöllur.  Tilgangur og markmið félagsins er að iðka, glæða og viðhalda áhuga á golfíþróttinni og styðja þannig við almenna íþróttaiðkun í Fjallabyggð.  Viðtalið má lesa hér að neðan.

Viðtal við GFB

1.    Hvernig leggst golfsumarið í ykkur hjá Golfklúbbi Fjallabyggðar?  Sumarið leggst mjög vel í okkur og tilhlökkunin er mikil.

2.    Hvað verða mörg mót í sumar og hvaða mót hefur verið vinsælast hjá ykkur?  Mótaskráin fyrir sumarið er í vinnslu og því ekki orðin fullmótuð.  Á síðasta ári héldum við um 30 mót og má reikna með svipuðu í ár.  
 Vinsælustu mótin hjá klúbbnum eru Norðurlandsmótaröðin sem er unglingamótaröð á Norðurlandi.  Golfklúbbur Fjallabyggðar hefur verið þátttakandi í þessari mótaröð frá árinu 2009.  Síðan höfum við haldið Minningamót um látna félaga árlega um verslunarmannahelgina sem hefur verið mjög vel sótt.

3.    Eru framkvæmdir á völlum eða aðstöðu skipulagðar hjá ykkur?  Já það eru framkvæmdir í gangi hjá okkur. Við erum að vinna í fjórum nýjum brautum. Þar af leiðandi munum við koma fyrir æfingasvæði (e: driving range).  

4.    Fái þið marga utanfélagsmenn til að spila golf á Skeggjabrekkuvelli, eða hvernig er skiptingin hjá ykkur?  Það er ekki mikið um að utanfélagsmenn spili hjá okkur.  Það er þá helst í tengslum við starfsmannamót fyrirtækja.  En það hefur aukist hjá okkur að fyrirtæki halda starfsmannamót til þess að efla andan meðal starfsfólksins.  

5.    Hvenær má reikna með að völlurinn opni í sumar?  Við reiknum með að opna völlinn í kringum mánaðarmótin maí-júní.

6.    Hvað eru mörg stöðugildi í kringum reksturinn hjá Golfklúbbi Fjallabyggðar?  Við erum með tvo vallarstarfsmenn og síðan erum við með einn starfsmenn í hlutastarfi sem sér um þjálfun og kennslu hjá félaginu.

7.    Hvað eru margir félagar í klúbbnum?  Það eru 102 félagsmenn í klúbbnum.  En það lítur út fyrir að það muni fjölga í ár.

8.    Hvernig gengur að fá ungt fólk í golfíþróttina í Fjallabyggð?  Það hefur gengið mjög vel.  En við erum að glíma við sama vandamál og hin íþróttafélögin þ.e brottfall úr íþróttinni.  En þessir einstaklingar koma samt sem áður sterkir inn í félagið aftur síðar.  Við höfum verið í samstarfi við golfklúbbanna á Norðurlandi með að efla barna og unglingastarfið.  

9.    Golfklúbbur Ólafsfjarðar var stofnaður 1968, verður haldið eitthvað sérstaklega upp á 50 ára afmæli 2018?  Það hefur ekkert verið ákveðið með það.  Líklega verðum við með afmælismót þar sem boðið verður uppá veislu að loknum leik.

Mótin í sumar hjá GFB

Hægt er að sjá upplýsingar um mót hjá klúbbinum í sumar á vef golf.is. Þökkum Rósu hjá GFB kærlega fyrir svörin.

gfb