Blakfélag Fjallabyggðar

Blakfélag Fjallabyggðar náði góðum árangri á sínu fyrsta starfsári á Íslandsmótinu í blaki sem lauk nú um helgina með lokamóti í Fjallabyggð. Við fengum forsvarsmann BF, Óskar Þórðarson til að svara nokkrum spurningum. Blakfélag Fjallabyggðar er hluti af Ungmenna- og íþróttasambandi Fjallabyggðar. Félagið var stofnað þann 11. maí 2016 en áður voru til liðin Hyrnan og Súlur en þau voru ekki íþróttafélög í formlegri mynd.

Hvað varð til þess að Blakfélag Fjallabyggðar var stofnað?

Tilgangur stofnunar félagsins var m.a. sá að stofna formlegt félag til að halda utan um blakstarfið í Fjallabyggð og gera gott starf enn metnaðarfyllra og skipulegra, m.a. með því að bjóða upp á barna- og unglingastarf.  Í vetur hefur félagið verið með þrjú lið í deildarkeppni, þ.e. í 2.deild karla (deildarmeistarar), 2.deild kvenna (héldu sæti sínu) og 3.deild kvenna (liðið féll) ásamt því að taka þátt í fjölda hraðmóta  á Norðurlandi.  Félagið mun svo senda fimm lið á Öldungamótið í Mosfellsbæ í vor. Krakkarnir hafa tekið þátt á nokkrum mótum, m.a. á Íslandsmóti á Akureyri fyrir áramót og á landshlutamóti á Húsavík í byrjun mars. Krakkarnir munu svo taka þátt á seinni hluta Íslandsmótsins í vor sem fram fer á Ísafirði.

Hvað eru margir félagsmenn í BF, karla og kvenna?

Í dag eru rúmlega 80 aðilar að æfa blak, þar af tæplega 30 krakkar á aldrinum 9-14.  Þeir sem eru í 15 ára og eldri eru að æfa með fullorðnum.

Áttu þið von á þessum árangri BF á sínu fyrsta starfsári, Íslandsmeistaratitill í 2. deild karla ?

Nei við áttum ekki von á því. Við fórum eiginlega bakdyramegin í mótið, þ.e. fengum að koma inn í mótið þegar ljóst var að síðasta mótahrinan væri spiluð í Fjallabyggð. En eftir góðan árangur í fyrstu mótahrinunni og að nokkrir ungir drengir á framhaldsskólaaldrinum hófu blakiðkun þá áttuðum við okkur á því að þetta væri möguleiki.

Hvað eru æfingar oft í viku og hvernig eru aðstæður fyrir félagið í Fjallabyggð?

Barna- og unglingastarfið er með æfingar einu sinni í viku en það var ákveðið að byrja rólega þar sem börnin í Fjallabyggð eru mörg hver að æfa fleiri en eina íþróttagrein. Stefnan er svo á að efla og auka barna- og unglingastarfið strax næsta haust. Fullorðnir eru að æfa 2-3 sinnum í viku. Allar aðstæður eru til fyrirmyndar í Fjallabyggð. Með stofnun formlegs félags með aðild að UÍF uppfyllti félagið reglur um frítíma í íþróttahúsunum sem er mikilvægt öllu íþróttastarfi. Gömlu blakfélögin reistu Strandblaksvöll á lóð Rauðku sumarið 2011 og nýttu ágóðann af Öldungamóti BLÍ sem félögin fengu þegar það fór fram á Tröllaskaga vorið 2012. Völlurinn hefur notið mikillar vinsældar og því má segja að blakstarfið sé í gangi allt árið.

Mun félagið reyna styrkja sig fyrir átökin í 1. deild karla í blaki á næstu leiktíð?

Nei það er ekki hugsað svoleiðis heldur frekar að efla allt starf félagsins t.d. með því að fjölga iðkendum á öllum stigum, þ.e. börnum, unglingum sem og fullorðnum.

Þökkum Óskari kærlega fyrir samtalið.