Andri Freyr Sveinsson KF – 2018

Íslandsmótið í 3. deild í knattspyrnu er að fara hefjast og við fengum nokkra leikmenn Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í viðtal. Fyrsta viðtalið er við varnarmanninn Andra Frey sem leikið hefur 88 leiki í deild- og bikarleikjum fyrir KF og KS/Leiftur og skorað eitt mark. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk árið 2009 og er með reynslumeiri leikmönnum liðsins í dag. Andri lék upp yngriflokkana hjá KF, en þá var liðið meðal annars sameinað lið KS/Leiftur og KS/Tindastóll/Hvöt.  Aðeins 15 ára gamall fær Andri tækifæri með meistaraflokki KS/Leifturs, en lék það árið jafnframt með 3. flokki liðsins. Haustið 2010 spilaði Andri fyrir 2. flokk Fram í Reykjavík, en þá hóf hann nám í Menntaskólanum við Sund og lág beinast við að æfa með félagi í Reykjavík. Sumarið 2010 lék hann bæði fyrir annan,þriðja og meistaraflokk KS/Leifturs. Árin 2012-2013 lék hann eingöngu fyrir Fram og sem lánsmaður hjá KA. Hjá þessum liðum spilaði hann í 2. flokki og nokkra leiki fyrir meistaraflokk. Frá árinu 2014 hefur Andri eingöngu spilað fyrir KF. Á síðasta tímabili lék Andri  16 leiki í deild og bikar og má segja að hann hafi átt fast sæti í leiðinu síðan 2014.  Andri er nú búsettur á Akureyri og stundar nám við Háskólann á Akureyri.
Sigurhlutfallið hjá Andra í meistaraflokksleikjum KF er 32% eða 28 sigrar, 17 jafntefli og 43 töp.

Viðtal við leikmenn Knattspyrnufélags Fjallabyggðar

Nafn, aldur, atvinna og búseta.

Ég heiti Andri Freyr Sveinsson og er 24 ára gamall. Ég er búsettur á Akureyri. Þar stunda ég nám við Háskólann á Akureyri. 
 
 Leikstaða(Vörn/Miðja/sókn)
 -Varnarmaður
 
 Hvernig undirbýrð þú þig fyrir leik?
 -Mér finnst mikilvægt að vakna snemma á leikdegi. Fá mér orkumikinn morgunmat og fara svo upp í rúm og horfa a nokkra sjónvarpsþætti. Göngutúrarnir eru svo mikilvægir upp á það að hittast fyrir leik og hugsa um eitthvað allt annað en fótbolta. 
Hvað æfir þú oft í viku?
 -Ef ég næ góðri viku æfi ég 6x i viku. 
 
Hver er mikilvægasti leikmaður KF?
 –Halldór Guðmundsson. Svo á Kristófer “Kríli” Ólafsson eftir að reynast okkur drjúgur i sumar. 
 
 
Hver er hraðasti leikmaður KF ?
 –Grétar Áki er fljótur á fyrstu metrunum. Aci (Aksentije Milisic) heldur að hann sé fljótastur. Svo er Björgvin Daði fljótur ef hann nennir því. 
 
 
Hver er grófasti leikmaður KF ?
 –Hákon Leó Hilmarsson er fantur! Svo þarf ekki að nefna Björgvin. Hann er sjálfskipaður.  
 
Hvaða persónulega markmið hefur þú fyrir leiki sumarsins?
 –Ég ætla mér að skora! Nei nei, markmiðið er alltaf að spila sinn besta leik og í leiðinni gefa af sér til liðsins. Miðla reynslu sinni til þeirra yngri og vonandi uppskera eftir því sem við sáum. Við ætlum okkur að enda ofar enn í fyrra og það þýðir að við þurfum allir að spila betur i sumar. 
 
Hvaða fyrirmynd hefur þú í fótboltanum? 
 –Þegar ég var yngri og fór suður á Hólsvöll á Siglufirði til að horfa á meistaraflokk KS, þar fylgdist ég alltaf bara með einum leikmanni. Ég vildi spila eins og Aggi Sveins. Aggi talar ennþá þann daginn í dag um það móment þegar ég bað hann um áritun. Ég held að hann ljúgi því reyndar!  
Hvað þarf liðið að gera til þess að komast aftur í 2. deild?
 –Ég er sannfærður um að ef við varnarmennirnir og Dóri markmaður spilum okkar leik, eru fá lið sem brjóta okkur. Við erum vel spilandi þrátt fyrir ungan aldur. Erum með lið sem getur skorað mörk og haldið bolta mjög vel. Við erum hungraðir í árangur og ætlum okkur upp um deild. Í fyrra áttum við það til að fá of mörg mörk á okkur og brotna niður. Í ár erum við reynslumeiri og betri varnarlega. 
 
Hvaða þrjú lið eru líklegt til að berjast á toppi 3. deildar í ár?
-KF, Augnablik, Vængir Júpiters.