Tómas Veigar leikmaður KF – 2018

Við fengum nokkra af leikmönnum Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í viðtal eftir að Íslandsmótinu lauk í 3. deild karla. Liðið enda í 3. sæti deildarinnar og var mjög nálægt því að komast upp um deild þrátt fyrir að hafa byrjað mótið illa. Annar í viðtal var Tómas Veigar sem leikur á miðjunni hjá KF og stundar auk þess nám í Háskólanum í Reykjavík . Tómas lék  alla 18 leikina í deildinni og tvo í bikarkeppninni, og skoraði 1 mark. Hann hefur alls leikið 21 KSÍ leik með félaginu. Hann kom á lánssamningi frá KA í vor og er samningsbundinn KA til 31.10.2019.

Einkaviðtal við Tómas Veigar leikmann KF

Nafn, aldur, leikstaða, atvinna ? Tómas Veigar Eiríksson, 20 ára miðjumaður og námsmaður.

Hvaða væntingar hafðir þú til KF liðsins áður en Íslandsmótið byrjaði í vor og var eitthvað markmið hjá liðinu fyrir mótið?                                                                                                                                         

Fyrir mót vildi ég fara upp í 2. deildina þar sem við áttum gott undirbúningstímabil þá sérstaklega í Lengjubikarnum og taldi ég því liðið eiga góðan möguleika á toppbaráttu, sem og aðrir leikmenn liðsins þar sem markmið liðsins var alltaf að vera í efstu sætunum.

 

KF var í neðsta sæti eftir 5. umferðir, með einn sigraðan leik og 4 töp, og hafði aðeins skorað 2 mörk. Hvað var í gangi í upphafi móts og hvað var gert til að bæta úrslit og leik liðsins? 

Byrjunin var erfið fyrir okkur alla. Fyrir utan leikinn á móti Sindra sem var ömurlegur, get ég ekki sagt að við spiluðum fyrstu 5 leikina mjög illa. Við spiluðum á köflum ágætlega en náðum einfaldlega ekki að skora, því náðum við aldrei á fá almennilegt sjálfstraust til þess að spila okkar bolta sem gerði byrjunina einkar erfiða fyrir allt liðið. Á þessu tímabili breyttist markmið okkar frá því að vinna deildina í það að berjast fyrir lífi okkar í deildinni og ég er nokkuð viss um að enginn hugsaði um það að reyna komast upp um deild. Ég held að það sem breytti öllu fyrir okkur var akkúrat þessi breytta nálgun á tímabilið. Þegar þarna var komið þurftum við að girða okkur í brók og fara berja á andstæðingum okkar í stað þess að vera leyfa þeim að komast upp með að taka 3 stig úr öllum leikjum.

 

Eftir 10 leiki þá var liðið komið í 7. sæti og hafði unnið 4 leiki, gert 1 jafntefli og tapað 5 leikjum. Taldir þú líklegt að liðið myndi enda í efstu sætunum í deildinni þegar hér var komið við sögu? 

Eftir þessa slöku byrjun fannst mér margt breytast. Við unnum Ægi sem var góður sigur og töpuðum svo gegn góðu liði KH. Leikurinn eftir þann leik breytti fannst mér öllu. Það var leikurinn gegn KV, sem var eitt af toppliðunum þá. Eftir þann sigur kom loksins sjálfstraust í liðið sem hafði vantað frá byrjun. Eftir 10 umferðir vorum við komnir á fínt skrið og þá var ég aftur byrjaður að hugsa um toppsætin og var viss um að ef við myndum ná að fylgja þessum árangri eftir þá gæti allt gerst.

Eftir 15 leiki þá var liðið allt í einu komið í bullandi séns að tryggja sér sæti í 2. deildinni. Var mikil spenna fyrir síðustu umferðir Íslandsmótsins, og var eitthvað ákveðið sem hefði mátt fara betur í síðustu þremur leikjum liðsins? 

Já, spennan fyrir þessa þrjá síðustu leiki var mikil innan hópsins enda gerðu menn sér grein fyrir því að það var undir okkur komið að koma liðinu aftur upp um deild. Þegar ég horfi til baka á þessa síðustu leiki er augljóst hvað mátti betur fara og það var leikurinn á mótí KV. Leikirnir á móti bæði KH og Dalvík voru frábærir en leikurinn gegn KV var hreint út sagt arfaslakur. Við nýttum ekki góð færi og vorum kæruleusir í vörninni, eitthvað sem minnti á byrjun tímabilsins.

KF endaði aðeins í 5. Sæti árið 2017 á Íslandsmótinu, en í ár var það 3. sætið og hársbreidd frá sæti í 2. deild að ári. Var tímabilið ásættanlegt þegar horft er á allt mótið sem heild ?  

Eins og ég sagði áðan vildi ég fara upp fyrir tímabilið svo út frá því séð fannst mér það mikil vonbrigði. En hvernig tímabilið spilaðist og hvernig KF hefur gengið undafarin ár er þetta vissulega bæting og auðvitað ásættanlegt en ásættanlegt er ekki alltaf nóg, en kannski er þetta bara biturleikinn að tala.

KF gerði 29 mörk og fékk á sig 23 mörk. Var varnarleikurinn lykill að góðum árangri í sumar? Tímabilið á undan þá skoraði KF 34 og fékk á sig 34.

Varnarleikurinn var klárlega stór hluti af gengi liðsins í sumar. Öftustu fjórir voru alltaf tilbúnir í leikina og voru heilt yfir frábærir, því er ekki furða að besti leikmaður KF var Damak og Andri valinn í lið 3. deildar hjá Fótbolta.net. Varnarleikurinn er samt meira en bara varnarlínan og var meginástæða góðrar varnarvinnu í sumar var liðið í heild. Það voru allir tilbúnir að verjast saman. Ef menn eru ekki allir eru tilbúnir í það, skiptir ekki máli hversu góðir einstaklingarnir eru og árangurinn verður enginn. Þess vegna er gott að hafa þjálfara eins og Milo sem minnir mann reglulega á það að allir verða að vera tilbúnir til þess að leggja á sig. Þó er vert að minnast á það að frammistaðan okkar heima var frábær og var hún einn stærsti hlutinn af góðu gengi. Þessi góða frammistaða á heimavelli hefði orðið engin ef áhorfendur hefðu ekki verið tilbúnir í að styðja við bak okkar, þó byrjunin hefði verið slök og það sést hversu miklu þessi stuðningur breytir, enda er liðið þakklátt fyrir alla þá sem komu að hvetja okkur áfram í sumar.

Tíu leikmenn skoruðu mörk KF á Íslandsmótinu, en liðinu hefur vantað mann sem skorar meira en 10 mörk á tímabili. Er þetta það sem skilur liðin af sem komast upp um deild og hafa mikla markahróka í sínu liði?

Fótbolti er liðsíþrótt og þarf liðið að vera samstillt og tilbúið í allt saman en auðvitað er mikilvægt að hafa leikmann sem skorar mörk gerir út um leiki. Því er þetta án efa einn af þeim hlutum sem skilja liðin af sem komast upp og þau sem gera það ekki.

Friðrik Örn (13 leikir) og Hákon Leó (17 leikir) fengu báðir 6 gul spjöld í sumar. Eru þetta grófustu leikmenn liðsins, eða spila þeir bara fastar en aðrir?

Frikki og og Hákon eru einfaldlega dólgar á vellinum, það verður bara að segjast eins og er. Þeir æfa eins og þeir spila, hart og fá gul spjöld meira en aðrir. Það er samt eitt af því sem lið þurfa að hafa, einhverja vitleysinga sem rífa liðið áfram þegar menn verða andlausir. Þó er það rannsóknarefni hvernig Hákon fékk ekki fleiri gul spjöld fyrir svanadýfurnar sína, þær voru svakalegar.

Reynir Sandgerði og Höttur og Huginn á Austurlandi verða í 3. deildinni næsta sumar, þekkið þið til þessara liða?

Þetta eru allt góð lið sem geta spilað fínan fótbolta en KF er einfaldlega betra í íþróttinni og ég hef engar áhyggjur af þessum liðum, frekar en öðrum.

Hvernig leggst næsta sumar í leikmenn KF? Eigi þið von að halda svipuðum hóp og jafnvel fá nýja menn næsta vor?

Það hlýtur að leggjast vel í leikmennina og þeir stemmdir að byggja ofan á fínan árangur í sumar. Þetta er svo spurning sem Maggi og félagar hljóta að vera velta fyrir sér.

Fréttamiðillinn Héðinsfjörður.is hefur verið með umfjallanir um leiki KF síðustu árin. Lesa leikmenn þessar fréttir og finnst ykkur að þær auki áhugann á leikjum liðsins ?

Já algjörlega, leikmennirnir lesa þessar fréttir og hafa gaman af. Þær auka vissulega áhugann bæði hjá áhorfendum sem og leikmönnum liðsins, enda alltaf gaman að sjá myndir af Hákoni í loftinu.