Hákon Leó Hilmarsson KF – 2018

Hákon Leó Hilmarsson er varnarmaður hjá Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar. Við höfðum samband nú skömmu fyrir Íslandsmótið og heyrðum í nokrkum leikmönnum KF. Hákon Leó verður nú kynntur til sögunnar. Hann er 21 árs og hefur átt fast sæti í liðinu síðustu tvö tímabil, leikið alls 36 leiki fyrir meistaraflokk KF í deildar- og bikarleikjum og tvo leiki fyrir Dalvík/Reyni. Sigurhlutfallið hjá honum er 32%, eða 12 sigrar, 5 jafntefli og 21 tap. Hákon komst fyrst á samning hjá KF árið 2013, þá 16 ára gamall, en hann er samningsbundinn út þetta ár hjá KF. Hákon hefur leikið með yngri flokkum KF og fékk fyrst tækifæri með meistaraflokki árið 2013, þá að verða 16 ára. Hann lék með sameiginlegu liði KF/Dalvíkur í 3. flokki og um mitt sumar 2014 þá skiptir Hákon yfir í Dalvík/Reyni og leikur tvo leiki með meistaraflokki, og þar af einn leik á móti KF. Um haustið skipti hann svo aftur yfir í KF. Hákon vinnur sem bakari á Siglufirði en býr í Ólafsfirði.  Hann stundaði einnig nám við Menntaskólann á Tröllaskaga og Menntaskólann í Kópavogi.

 

Viðtal við leikmenn Knattspyrnufélags Fjallabyggðar

 

Nafn, aldur, atvinna, búseta

– Hákon Leó Hilmarsson, verð 21 ára í júní, er Bakari í Aðalbakaranum á Siglufirði og bý ég á Ólafsfirði

 

Leikstaða(Vörn/Miðja/sókn)

– Vörn/Vinstri bakvörður,

 

 Hvernig undirbýrð þú þig fyrir leik?

– Mjög einfalt, Sofa snemma, vakna snemma borða góðan morgunmat, hreinsa hugann og hlusta á kólumbíska tónlist eftir Snorra Eldjárn. Það lætur mig hlægja og ég fer í gott skap.  Svo er ég reyndar með fáránlega rútínu þegar ég er búinn að taka í hendurnar á öllum leikmönnum þá boxa ég þrisvar í loftið og slæ þrisvar í sitthvort lærið.

 

Hvað æfir þú oft í viku?

– 5 sinnum í viku

  

Hver er mikilvægasti leikmaður KF?

– Ef Sævar og Björgvin eru ekki á æfingum þá er ekkert vatn og linir boltar þannig þeir eru mikilvægir. En heilt yfir eru reynsluboltarnir og gömlu kempurnar Dóri og Andri Freyr mikilvægastir.

 

Hver er hraðasti leikmaður KF ?

-Ég var að kaupa mér rauða Nike skó og ég hleyp rosalega hratt í þeim en þegar ég er ekki í þeim eru Grétar Áki og Björgvin Daði hraðastir.

 

Hver er grófasti leikmaður KF ?

– Ætli ég og Björgvin Daði deilum ekki saman þeim titli.

 

 Hvaða persónulega markmið hefur þú fyrir leiki sumarsins?

-Leggja mig 100% fram í öllum leikjum og reyna hjálpa liðinu eins mikið og ég get.

 

Hvaða fyrirmynd hefur þú í fótboltanum?

-Ingi Freyr bróðir minn, ég ólst upp við að horfa á hann spila fótbolta og hef ég alltaf litið upp til hans.

 

Hvað þarf liðið að gera til þess að komast aftur í 2. deild?

-Hafa trú á verkefninu, fara í alla leiki með hausinn rétt skrúfaðann á og vinna allir saman sem lið.  Þá getum við gert magnaða hluti.

 

Hvaða þrjú lið eru líklegt til að berjast á toppi 3. deildar í ár?

-Að sjálfsögðu KF og ætli KFG og Einherji verði ekki þarna með okkur.