Aksentije Milisic leikmaður KF -2018

Aksentije Milisic kom í viðtal hjá okkur skömmu eftir Íslandsmótið í knattspyrnu. Hann er einn af reyndari leikmönnum KF og hefur leikið 56 KSÍ leiki með liðinu og skorað 10 mörk. Hann hefur einnig leikið fyrir Dalvík, Magna og KA og alls leikið 99 leiki í meistaraflokki á Íslandi og skorað 15 mörk. Hann leikur á miðjunni með KF og er skapandi leikmaður. Aksentije rennur út á samningi 31.12.2018 hjá KF og er því framtíðin óráðin. Faðir Aksentije er Slobodan Milisic þjálfari KF, en hann spilaði á sínum yngri árum fyrir Leiftur í Ólafsfirði í fjögur tímabil en fór síðan til ÍA og KA.

Einkaviðtal við Aksentije Milisic leikmann KF

Nafn, aldur, leikstaða, atvinna ? 

Aksentije Milisic, 25 ára, Miðjumaður, Í námi við Háskóla Akureyrar.

 Hvaða væntingar hafðir þú til KF liðsins áður en Íslandsmótið byrjaði í vor og var eitthvað markmið hjá liðinu fyrir mótið? 

Satt best að segja hafði ég ekki miklar væntingar til liðsins fyrir mót. Ástæðurnar eru þær að við missum 4-5 sterka byrjunarliðsmenn frá því í fyrra og fáum inn unga strákar sem flestir voru að spila sína fyrstu keppnisleiki í meistaraflokki og voru þannig séð óskrifuð blöð og svoleiðis getur alltaf tekið smá tíma að smella. Það er jákvætt að spila ungum og óreyndum strákum en þá verða menn að vera þolinmóðir varðandi það að vilja skjótast strax upp um deild, ef þetta er leiðin sem verið er að fara.  Mér fannst við vera fara inn í mótið með slakari mannskap heldur en í fyrra og það var allt mjög lengi að gerast í leikmannamálum hjá liðinu. Við vorum frekar fáir að æfa í allan vetur og náðum oftar en ekki rétt að skrapa saman í lið í leiki og svoleiðis getur tekið á. Við fengum inn suma leikmenn þegar 2-3 leikir voru nú þegar búnir af mótinu svo að það var erfitt að fara gera eitthverjar vætingar af viti annað en þær að vera á ágætu róli um miðja deild. Á meðan flest öll önnur lið deildarinnar voru að styrkja sig fyrir mót var lítið að frétta hjá okkur og það var ekki fyrr en eftir nokkrar umferðir að við vorum búnir að ná að slípa okkur ágætlega saman. Þrátt fyrir það vorum við með mjög þunnan hóp en við vorum heppnir að sleppa tilturlega vel við meiðsli yfir allt mótið. Mér fannst óraunhæft fyrir tímabilið að ætlast til þess að liðið færi upp um deild miðað við hópinn sem þjálfarinn hafði í höndunum þegar fyrsti leikur var flautaður á.

Það voru engin sérstök markmið sett fyrir mótið en menn vilja alltaf gera betur heldur en árið áður og reyna að blanda sér í baráttuna í efri hluta deildarinnar. Það var markmið að gera heimavöllinn af alvöru gryfju og það tókst, 8 sigrar af 9 mögulegum þetta sumarið. 

KF var í neðsta sæti eftir 5. umferðir, með einn sigraðan leik og 4 töp, og hafði aðeins skorað 2 mörk. Hvað var í gangi í upphafi móts og hvað var gert til að bæta úrslit og leik liðsins? 

Það sem var að hrjá okkur aðalega í byrjun móts voru einstaklingsmistök. Að mínu mati vorum við búnir að spila 3 og hálfan leik kannski af þessum fyrstu 5 bara nokkuð vel. En það er hrikalega dýrt þegar við gefum andstæðingunum mörk í jöfnum leik og mörk breyta leikjum. Einnig vantaði smá bit á síðasta þriðjungi vallarins að skapa og klára færi og því varð byrjunin svona, bæði algjör klaufamistök og svo voru hlutirnir ekki að falla með okkur á réttum tímapunktum. Fólk sá kannski á töflunni að við vorum neðstir og héldu að við værum með lélegt lið en bæði við og þau sem horfðu á leikina okkar vissu að við stóðum okkur betur heldur en taflan sýndi. Við vorum með yngsta liðið í 3.deildinni í sumar og í byrjun sýndi sig ákveðið reynsluleysi á ákveðnum sviðum leiksins.
Það var þannig séð ekki gert eitthvað eitt sérstakt til að bæta gengi liðsins, það vantaði aðalega það að vinna 2-3 leiki í röð og fá sjálfstraust. Við æfðum alveg jafn vel sama þó að það gengi illa eða ekki og ég held að vendipunkturinn okkar í sumar hafi verið sá þegar við heimsóttum topplið Dalvíkur/Reynis og vorum fyrsta liðið í deildinni til að sækja stig á þann völl í mjög vel útfærðum leik að okkar hálfu. Þar á undan unnum við lífsnauðsynlegan sigur gegn KV og þá var farið að koma meira sjálfstraust í liðið og við vissum að á góðum degi gátum við unnið öll lið í þessari deild.  Aðalmálið var að fara ná í eitthver stig á útivelli því á heimavelli vorum við óstöðvandi. Einnig á þessum tímapunkti vorum við byrjaðir að spila mun betri varnarleik sem lið, minnka einstaklingsmistökunum og þá var oftar en ekki alltaf nóg að skora aðeins eitt mark og vinna leikina eins og síðar varð raunin hjá okkur. Við héldum markinu hreinu alls 8 sinnum í sumar.

 Eftir 10 leiki þá var liðið komið í 7. sæti og hafði unnið 4 leiki, gert 1 jafntefli og tapað 5 leikjum. Taldir þú líklegt að liðið myndi enda í efstu sætunum í deildinni þegar hér var komið við sögu? 

Ekki akkúrat á þessum tímapunkti kannski. Þarna hafði ég trú á því að við myndum mjakast hægt og rólega upp töfluna en ég var ekki viss um að við myndum berjast um fyrstu 2 sætin. Það var eftir sigurinn á Einherja í 12.umferð sem ég sá tækifærið okkar, miðað við leikina sem voru framundan eftir verslunarmannahelgina þá sá ég fram á það ef við næðum góðum stöðugleika þarna í þessum leikjum og önnur úrslit myndum af og til detta með okkur þá væri þetta klárlega séns, sem þetta síðar varð og rúmlega það.

Eftir 15 leiki þá var liðið allt í einu komið í bullandi séns að tryggja sér sæti í 2. deildinni. Var mikil spenna fyrir síðustu umferðir Íslandsmótsins, og var eitthvað ákveðið sem hefði mátt fara betur í síðustu þremur leikjum liðsins?

Já það var mjög mikil spenna, enda miklu skemmtilegra að spila leiki þar sem allt er undir og þá kemur í ljós úr hverju menn eru gerðir. Í tveimur af síðustu þremur leikjunum sigrum við KH og Dalvík/Reyni sannfærandi svo það er ekkert út á þessa tvo leiki að setja. Það er fyrst og fremst KV leikurinn í næst síðustu umferð sem svíður mjög mikið. Á þeim tímapunkti var allt í okkar höndum og við byrjuðum þann leik af krafti, nýttum ekki færin okkar og KV-menn refsuðu grimmilega úr skyndisóknum. Í kjölfarið urður þeir mjög þéttir í varnarleiknum. Það var að sjálfsögðu margt sem við hefðum geta gert miklu betur í þeim leik en ég myndi ekki segja að við höfðum bognað undan einhverri pressu, við sigrum t.d. Dalvík/Reyni í lokaleiknum undir svakalegri pressu þegar allt var undir. Það var frekar það að þetta var mjög vel útfærður leikur hjá KV, voru þéttir til baka og særðu okkur á skyndisóknum og bara hrós á þá fyrir vel skipulagaðan og agaðan leik.

KF endaði aðeins í 5. Sæti árið 2017 á Íslandsmótinu, en í ár var það 3. sætið og hársbreidd frá sæti í 2. deild að ári. Var tímabilið ásættanlegt þegar horft er á allt mótið sem heild ?

Já ég myndi klárlega segja það þó að endirinn hafi síðan orðið grátlegur. Miðað við hvernig staðan á liðinu var rétt fyrir mót og hvernig mótið byrjaði þá held ég að við höfum gert mjög vel þegar öllu er á botninn hvolft og þjálfarinn náð að kreysta nær allt út úr liðinu. Ef einhver hefði boðið okkur það fyrir mót að vera í 2.sæti þegar ein mínúta væri eftir af tímabilinu, þá held ég að hver einasti maður hefði tekið því.

KF gerði 29 mörk og fékk á sig 23 mörk. Var varnarleikurinn lykill að góðum árangri í sumar? Tímabilið á undan þá skoraði KF 34 og fékk á sig 34.

Já hann var mjög mikilvægur hluti af velgengninni. Við fengum mjög góðan liðsstyrk þegar mótið var byrjað í Jordan Damachoua og hann varð fljótlega eins og klettur í vörninni og líklega besti miðvörður deildarinnar. Einnig datt Halldór markmaður í gírinn um mitt mót og þá byrjaði allt liðið að fúnkera mjög vel í varnarleiknum og var vel agað og skipulagt af þjálfaranum. Það sást best í 0-1 útisigrum á Sindra og Ægi að þá klúðruðum við hverju dauðafærinu á fætur öðru að gera út um leikina en aftur á móti gaf hver einasti maður sig allan fram í varnarleiknum og gáfum við mjög fá færi á okkur og þá var nóg að skora aðeins eitt mark til þess að sækja stigin.

Tíu leikmenn skoruðu mörk KF á Íslandsmótinu, en liðinu hefur vantað mann sem skorar meira en 10 mörk á tímabili. Er þetta það sem skilur liðin af sem komast upp um deild og hafa mikla markahróka í sínu liði? 

Já, það er einn af þeim hlutum sem skilur liðin af. Það er mikilvægt að hafa mann sem hægt er að treysta á að skili 10+ mörkum um sumarið og það er eitthvað sem okkur hefur skort bæði í fyrra og í ár. Aftur á móti fengum við mörk úr mörgum áttum frá liðinu í sumar og það er líka jákvætt. En það er alltaf betra að hafa topp markaskorara sem hægt er síðan að byggja liðið í kringum.

Friðrik Örn (13 leikir) og Hákon Leó (17 leikir) fengu báðir 6 gul spjöld í sumar. Eru þetta grófustu leikmenn liðsins, eða spila þeir bara fastar en aðrir?

Já hiklaust, held að ég tali fyrir hönd allra í hópnum að þessi tölfræði kemur engum á óvart. Skemmtilegt að sjá hins vegar að þeir félagarnir slysuðust í að skora 3 mörk samanlagt í sumar.

Reynir Sandgerði og Höttur og Huginn á Austurlandi verða í 3. deildinni næsta sumar, þekkið þið til þessara liða?

Við þekkjum nokkuð vel til Reynis þar sem við mættum þeim fyrir aðeins ári síðar og við vitum við hverju á að búast í leikjum gegn þeim. Hin tvö liðin vitum við hins vegar minna um og þau gætu mætt með töluverðan breyttan hóp til leiks næsta sumar heldur en hann hefur verið hjá þeim síðustu ár.

Hvernig leggst næsta sumar í leikmenn KF? Eigi þið von að halda svipuðum hóp og jafnvel fá nýja menn næsta vor?

Í hreinskilni sagt hef ég hreinilega ekki hugmynd um það eins og staðan er núna hvernig næsta ár verður. Þjálfarinn er orðinn samningslaus og lítið komið fram en sem komið er hvort hann verður áfram ásamt því að þó nokkuð af leikmönnum þar á meðal ég, eru samningslausir. Ef Míló verður áfram býst ég við því að það verður svipaður hópur og var í ár og þá vonandi með viðbót nokkurra leikmanna tímanlega svo hægt sé að gera alvöru atlögu að toppbaráttunni aftur. Ef það kemur nýr maður í brúnna hins vegar þá gætu orðið töluverðar breytingar á leikmannahópnum.

Fréttamiðillinn Héðinsfjörður.is hefur verið með umfjallanir um leiki KF síðustu árin. Lesa leikmenn þessar fréttir og finnst ykkur að þær auki áhugann á leikjum liðsins ?

Þetta er frábært framtak og langtum flestir leikmenn liðsins lesa þetta enda mjög gaman að sjá hvernig fjallað er um okkur. Þetta hefur klárlega aukið áhugann á liðinu og einnig er gaman að sjá að lífgað hefur verið upp á Facebook síðu liðsins þar sem leikmannakynningar og aðrar fréttir tengdar liðinu og leikjum hefur verið sett inn reglulega yfir sumarið. Svona hlutir auka áhugann og gaman fyrir fólk að geta fylgst með liðinu hvar sem það er statt.