Aksentije Milisic hefur leikið með Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar síðustu þrjú árin og einnig árið 2014 sem lánsmaður. Hann er sonur þjálfara KF, Slobodan Milisic sem hefur þjálfað liðið frá árinu 2017, eða síðustu þrjú tímabil. Aksentije hefur leikið 67 leiki fyrir KF í meistaraflokki í deild og bikar og skorað 12 mörk. Hann hefur alls leikið 112 leiki í meistaraflokki með KF, Dalvík/Reyni, Magna og KA þar sem hann lék upp alla yngri flokkana.
Aksentije var í viðtali hjá okkur í vikunni og svaraði hann spurningum um meiðslin í upphafi móts og hvernig það er að hafa föður sem þjálfara.
Aksentije var einnig í viðtali hjá ykkur eftir Íslandsmótið 2018 sem lesa má hér á vefnum.
VIÐTAL
1. Hvað var uppleggið fyrir mótið og voru áherslubreytingar frá þjálfara? Uppleggið fyrir mót var að komast upp í 2. deildina. Í hitti fyrra vorum við lengi vel í toppbaráttunni og í fyrra vorum við aðeins örfáum sekúndum frá því að komast upp. Svo að markmiðið fyrir þetta sumar var augljóst, að klára dæmið og komast upp. Uppleggið var svipað og hefur verið síðustu ár, að spila sóknarbolta og keyra á andstæðingana frá fyrstu mínútu.
2. Þú náðir aðeins 13 leikum í deild og bikar í ár, hvaða meiðsli varstu að glíma við og hversu lengi varstu frá? Ég var búinn að vera heill heilsu í allan vetur og hafði æft á fullu. Síðan um miðjan apríl meiðist ég í hnénu í bikarleiknum gegn Magna og það kemur rifa í sin í hnénu sem hélt mér frá vellinum meira og minna í rúma 2 mánuði. Eftir meiðslin var ég þó mjög sáttur með að ná að taka þátt í öllum seinni hluta mótsins og hjálpa strákunum að gefa í og klára dæmið.
3. Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik? Eftirminnilegasti leikurinn í heild fannst mér vera útisigurinn á Hetti á Egilsstöðum 3-4. Þetta var erfiður og mikilvægur leikur fyrir okkur þar sem við komumst í 1-3 yfir en þeir jafna. Síðan settum við 3-4 markið á þá og lágum í vörn síðustu mínúturnar og náðum að halda út og landa þessum 3 stórum stigum.
Eftirminnilegasta atvikið er þó klárlega sigurmarkið okkar á Höfn í Hornafirði þegar við skoruðum með síðustu spyrnu leiksins á 97 mínútu og fagnaðarlætin eftir leik í takt við það.
4. Þú hefur spilað fjögur tímabil með KF, hefur orðið einhver breyting eða þróun á félaginu á þessum tíma ? Fyrir utan þjálfara og leikmannamál þá hafa ekki orðið miklar breytingar á klúbbnum síðustu ár. Það er þó að koma aukin fagmennska í liðið og það mun bara aukast á komandi árum. Nú þegar liðið er komið í sterkari deild þá verða allir að spýta í lófanna.
5. Hvaða væntingar hefur þú til næsta tímabils í 2. deild karla, en KF spilaði þar síðast 2014 ? Ef hópurinn helst nokkuð svipaður og hann var í sumar og þá sérstaklega ef liðinu tekst að halda lykilmönnum eins og Alexander Má, Ljubomir Delic og Jordan Damachoua og mögulega bæta við 2-3 leikmönnum þá held ég að liðið geti klárlega endað í efri hluta deildarinnar. En það er kannski erfitt að segja til um væntingar akkúrat núna þegar það er ekki enn komið á hreint hvernig liðið verður samansett.
6. Gervigras er komið á teikniborðið hjá Fjallabyggð, hverju mun það skipta fyrir félag eins og KF sem hefur haft takmarkaða æfingaaðstöðu yfir veturinn? Það mun skipta miklu máli og þá sérstaklega fyrir yngri flokka félagsins. Þá eru komnar aðstæður til þess að æfa allan ársins hring og þannig er hægt að búa til góða leikmenn.
Hins vegar, þá er ég mikill gras maður og það er fátt betra en að spila á góðu, alvöru grasi eins og Ólafsfjarðarvöllur er yfir sumarið. Draumurinn væri bara að setja gervigras á æfingasvæðið.
7. Er erfitt að hafa föður sinn sem þjálfara, hvaða kosti og galla getur það haft? Mér finnst það ekki erfitt. Gallarnir eru þeir að það kemur sjálfkrafa pressa á leikmenn sem eru synir þjálfara síns og þeir þurfa að sýna og gera miklu meira en aðrir annars gæti fólk byrjað að tuða. Stundum hefur mér ég fundist ekki eiga sérstakan leik en svo horfi ég á upptöku af honum seinna og þá sé ég betur að ég átti bara fínan leik borið saman við aðra. En það verður alltaf þessi umræða með leikmenn sem eru synir þjálfara síns og hvort þeir eigi að vera í liðinu í ákveðnum leikjum eða ekki en það hefur aldrei truflað mig og mun ekki gera. Ég veit nákvæmlega hvenær ég spila vel og hvenær illa og hvar gæðin mín liggja.
Kostirnir við þetta eru þeir að hann þekkir mig betur en allir. Hann veit nákvæmlega í hvaða stöðu ég spila best, hverjir séu kostirnir og gallarnir og þess vegna er hann sá þjálfari sem hefur náð miklu meir út úr mér á vellinum heldur en aðrir þjálfarar.