Knattspyrnufélag Fjallabyggðar gert samning við leikmanninn Jose Enrique Seoane Vergara út tímabilið. Hann er kallaður Sito og hefur leikið áður í tveimur efstu deildum á Íslandi. Sito er 34 ára framherji og sóknarsinnaður miðjumaður. Hann á 130 deildar- og bikarleiki á Íslandi og hefur skorað 39 mörk í þeim. Hann lék síðast fyrir ÍBV í þrjú tímabil frá 2020-2022. Hann átti sitt besta tímabil á Íslandi fyrir 2 árum þegar hann skoraði 13 mörk í 20 deildarleikjum. Hann lék einnig með ÍBV árið 2015. Í framhaldinu lék hann eitt tímabil með Fylki og eitt tímabil með Grindavík.

Leikmaðurinn var á stuttum samningi hjá spænska liðinu Bergantiños FC frá febrúar 2023 og út júní mánuð. Hann var því með lausan samning til að komast til KF. Hann er fenginn til liðsins til að hjálpa liðinu í baráttunni í 2. deildinni, en liðið hefur aðeins skorað 10 mörk í 9 leikjum og vantar að klára betur færin sem liðið er að skapa.

Sito er með tvöfalt ríkisfang, fæddur í Bandaríkjunum en er einnig með spænskt ríkisfang. Hann er 175 sm og vinstrifótar maður.

Reiknað er með að leikmaðurinn fái leikheimild með KF 18. júlí. Hann ætti því að vera til taks í leiknum gegn Völsungi á Húsavík, 22. júlí næstkomandi.

KF leikur næst gegn Haukum á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn 8. júlí, og þar á eftir gegn Sindra á Hornafirði, laugardaginn 15. júlí.