Fimmtudaginn 27. apríl síðastliðinn var haldinn fræðsludagur um líknarþjónustu á Sjúkrahúsi Akureyrar. Tilefni fræðsludagsins var formleg stofnun Líknarmiðstöðvar Sjúkrahúss Akureyrar.
Heilbrigðisráðuneytið gaf út aðgerðaráætlun árið 2021 um líknarþjónustu til fimm ára. Í þeirri áætlun er margt lagt til grundvallar um áherslur þjónustunnar og sett er upp meginþema og aðgerðir skilgreindar og tímasettar. Ein af áætlunum er m.a að Sjúkrahúsið á Akureyri og Landsspítali komi á fót Líknarmiðstöð og þannig verði tvær líknarmiðstöðvar á landinu.
Líknarmiðstöð á að vera þekkingareining sem hefur það hlutverk að veita ráðgjöf, stuðning, fræðslu og þjálfun til þjónustuveitenda um allt land. Líknarmiðstöð á að bera ábyrgð á klínískum leiðbeiningum um líknarmeðferð, þróa gæðavísa og þannig aukið aðgengi að sérfræðiþekkingu um líknarmeðferð. Einnig er áhersla á að auka þekkingu almennings á líknarþjónustu.
Á SAk hefur verið farið í greiningarvinnu um stöðu líknarþjónustu innan stofnunarinnar og rýnt í það hlutverk sem stofnuninni er ætlað að veita út frá aðgerðaráætluninni. Sú vinna hefur gengið vel og ágætlega tekist að rýna í þá þætti og leggja mat á hvernig við getum mótað okkar líknarþjónustu. Það er því ánægjulegt að koma á fót slíkri líknarmiðstöð sem er upphafið að festa í sessi þá hugmyndafræði og þá sérfræðiþekkingu sem við höfum og viljum búa til hér innan SAk. Á sama tíma að búa til þekkingareiningu sem líknarmiðstöð er ætlað að veita með sinni sérfræðiþekkingu til annarra stofnana á okkar upptökusvæði.
Fræðsludagurinn var vel sóttur og margir hlustuðu í streymi sem okkur fannst mikilvægt að geta boðið uppá því það er einmitt eitt af mikilvægustu hlutverkum líknarmiðstöðvar SAk, að geta veitt fræðslu til starfsmanna annarra stofnana á landsbyggðinni.