Merkilegar fornminjar hafa fundist nærri fyrirhuguðum gangamunna Vaðlaheiðaganga í Fnjóskadal. Talið er að þar séu umfangsmiklar leifar járnvinnslu. Fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga hefur undanfarnar vikur verið við fornleifauppgröft að Skógum í Fnjóskadal en verkið er unnið fyrir Vegagerðina vegna fyrirhugaðra Vaðlaheiðaganga. Fundist hafa leifar mikillar járnvinnslu úr mýrarrauða á staðnum sem áætlað er að hafi verið starfandi á tímabilinu 1104 til 1300.

Á staðnum megi sjá allt framleiðsluferlið þ.e.a.s. rauðanámuna, kolagerðina og járnvinnslustaðinn og eru minjarnar bæði umfangsmeiri og heillegri en fornleifafræðingarnir áttu von á. Byggðasafnið mun fljótlega funda með Vegagerðinni og Minjaverði Norðurlands eystra um áframhaldið og hvort gera þurfi fleiri rannsóknir á staðnum áður en hægt verður að hefjast handa við gangnagerð á staðnum.

Gert  er ráð fyrir því að það þurfi að klára þennan uppgröft en hvort það kosti einhverjar tafir á Vaðlaheiðargöngum er ekki vitað að svo stöddu.