Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, opnuðu í gær með formlegum hætti fjölskylduheimilið Sólberg í Kotárgerði á Akureyri. Heimilið hefur nú þegar tekið til starfa en þar fer fram greiningar- og þjálfunarvistun fyrir börn og foreldra þeirra.
Fjölskylduheimilið er rekið á grundvelli samstarfssamnings Akureyrarbæjar og mennta- og barnamálaráðuneytisins sem undirritaður var í byrjun árs. Á efri hæð hússins í Kotárgerði er hægt að vista á sama tíma allt að tvær fjölskyldur og að auki er aðstaða á neðri hæð til að vista unga móður/foreldra með ungt barn eða þungaða móður.
Markmiðið með fjölskylduheimili er að veita inngrip til skamms tíma þegar hefðbundin úrræði duga ekki til. Þar eru börn og ungmenni vistuð, vandi þeirra greindur og viðeigandi þjálfun fer fram sem miðar að því að styrkja forsjáraðila í uppeldishlutverki þeirra og aðstoða börn og ungmenni með viðeigandi hætti svo þau geti snúið heim aftur.
Með úrræðinu er leitast við að grípa fyrr inn í mál barna og ungmenna en áður og koma þannig í veg fyrir að vandi þeirra vaxi og að grípa þurfi til meiri íþyngjandi úrræða, svo sem langtímavistunar fjarri heimabyggð.
Verkefnið er fjármagnað af mennta- og barnamálaráðuneytinu og Akureyrarbæ en velferðarsvið Akureyrarbæjar sér um framkvæmd þess og utanumhald. Um tilraunaverkefni er að ræða og verður framhald verkefnisins ákveðið í ljósi þess árangurs sem það skilar.