Umfjöllun um leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.

Það var von á jöfnum leik þegar Haukar mættu KF í 32 liða úrslitum í Mjólkurbikarnum á Ólafsfjarðarvelli. Þjálfari KF gerði nokkrar breytingar og var meðal annars varamarkmaðurinn kominn í byrjunarliðið og annar varamarkmaður mættur á bekkinn. Hákon Leó vinstri bakvörður liðsins var mættur í byrjunarliðið en hann hefur verið á bekknum undanfarna leiki. Oumar Diuck var fyrirliði KF í þessum leik í fjarveru Halldórs markmanns og Grétars Áka sem var á bekknum.

Haukarnir mættu með ungt lið í þennan leik, markmaður þeirra er 17 ára og fjórir aðrir fæddir árið 2000 í byrjunarliðinu.

Leikurinn byrjaði fjörlega og ekki vantaði færin. Gestirnir komust yfir strax á 5. mínútu þegar Kristófer Þórðarson kom boltanum í netið. Hans fjórða mark í deild og bikar í sumar.

KF var ekki lengi að jafna en á 10. mínútu skoraði varnarmaðurinn Cameron Botes, hans fyrsta mark fyrir félagið, staðan orðin 1-1.

Staðan var 1-1 í hálfleik, en þjálfari Hauka gerði eina breytingu í hálfleik og aðra þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Þriðja skipting gestanna kom á 62. mínútu og voru nú þrír ferskir menn komnir inná í baráttuna.

Á 68. mínútu skora Haukar sitt annað mark en það var markahrókurinn Tómas Ásgeirsson sem skoraði sitt áttunda mark í deild og bikar í sumar, en hann var markahæsti leikmaður Hauka í fyrra með 15 mörk í deild og bikar.

KF sótti sér þrjú gul spjöld á sjö mínútna kafla og harka færðist í leikinn. KF tókst ekki að nýta sér færin sem komu þrátt fyrir ágætis spilamennsku í leiknum.

KF gerði skiptingu á 71. mínútu þegar Hákon Leó fór útaf og Birkir Már Hauksson kom inná.

Inn vildi boltinn ekki hjá KF í síðustu sóknum leiksins og unnu Haukar 1-2 og komust áfram í 16 liða úrslit. KF er þar með úr leik í bikarnum í ár.