Tilkynnt var um alvarlegt umferðaslys kl. 20.32 í gærkvöldi á Siglufjarðarvegi, við Grafará, skammt sunnan við Hofsós.
Bifreið lenti utan vegar, ökumaður hennar og þrír farþegar slösuðust. Allir aðilar voru fluttir af vettvangi, m.a. með þyrlu Landhelgisgæslunnar til aðhlynningar. Líðan þeirra er eftir atvikum.
Þá var óskað eftir aðkomu áfallateymis RKÍ og bakvakt barnaverndar í Skagafirði var upplýst um málið en talsvert var af ungmennum á vettvangi.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa var á vettvangi og var vegurinn lokaður á meðan aðgerðinni stóð.
Uppfært:
Bifreið sem ekið var í norðurátt kastaðist utan vegar með þeim afleiðingum að ökumaður hennar, og þrír farþegar slösuðust. Einn var fluttur með þyrlu LHG á Landspítala Háskólasjúkrahús en aðrir fóru með sjúkraflugi á sama stað. Frekari upplýsingar um ástand þeirra liggur ekki fyrir.
Hópur ungmenna, tæplega 30 einstaklingar, sem voru á leið í samkvæmi á Hofsósi, voru á vettvangi slyss er lögreglu bar að. Þeim var fylgt í húsnæði Björgunarsveitarinnar Grettis á Hofsósi þar sem lögregla, björgunarsveit og áfallateymi RKÍ hlúðu að þeim.
Um tíma var opnuð hjáleið fyrir foreldra og aðstandendur þeirra svo unnt væri að koma öllum í faðm fjölskyldu sinnar eða vina. Bakvakt barnaverndar í Skagafirði var í sambandi við lögreglu á vettvangi og var upplýst um aðgerðir.
Vegurinn var opnaður fyrir umferð kl. 01.07 í nótt en áfram verður unnið á vettvangi í dag.