Trilludagar voru haldnir í dag á Siglufirði í fjórða sinn. Mikið fjölmenni var í morgun og í allan dag á hátíðarsvæðinu, erfitt að giska á fjöldann en örugglega yfir 2000 sem heimsóttu svæðið í dag. Um 40 biðu í röð í morgun eftir trillubátarnir hófu ferðir á sjóstöng og útsýnisferðir út á Siglufjörð, það hafði klárlega mikið aðdráttarafl. Röðin hélst alveg til kl. 16:00 þegar síðustu ferðirnar voru farnar, og voru 20-30 ávallt í röðinni á milli þess sem bátarnir komu í höfn. Óskar Leó, tæplega 11 ára gamall Reykvíkingur var aflakóngur en hann veiddi 15 þorska á sína stöng og tvívegis komu þrír þorskar á önglana hjá honum. Drengurinn var í fyrsta sinn á Trilludögum var mjög ánægður með túrinn.

Veður milt allan daginn en sólin kom þó ekki eins og spáin sagði til um, en talsverð þoka var yfir í morgun en létti til þegar leið á. Margir frábærir viðburðir voru í boði á þessari fjölskyldu skemmtun í Fjallabyggð. Fiskurinn var grillaður á hátíðarsvæðinu og smakkaðist hann alveg frábærlega, eins voru pylsur og safi í boði fyrir alla. Stúlli og Danni héldu uppi frábærri stemningu á sviðinu og tvíburarnir Þorvaldssynir voru næstir á svið og eru þetta ungir bræður sem hafa skapað sér nafn hér í Fjallabyggð. Frábær flutningur frá þeim í dag.

Við hoppukastalann var mikið af ungum börnum eftir því sem leið á daginn. Við Rauðkutorgið var svo annar frábær kastali sem hentaði öllum börnum, og einnig minigolf. Það var sem sagt nóg að gera fyrir yngri kynslóðina í dag á Siglufirði. Húlla dúllan mætti svo á svæðið og húllaði með krökkunum við tjaldsvæðið og á hátíðarsvæðinu og vakti það mikla lukku.

Það er óhætt að mæla með þessari frábæru hátíð á Siglufirði, allt fyrir fjölskylduna og gaman að eyða deginum við höfnina.

Um þessa helgi voru einnig fjölmargir menningarviðburðir í Fjallabyggð, svo fólk gat gengið á milli safna og átt góðan dag í Fjallabyggð.