Vel á þriðja hundrað gestir sáu haustsýningu Menntaskólans á Tröllaskaga á laugardag sl. Sýndur er afrakstur vinnu nemenda í myndlist, listljósmyndun, upplýsinga- og tæknimennt og ensku auk þess sem nemendur starfsbrautar kynntu nýútkomið blað sitt. Ballöður, valsar og gítardúettar tónlistarnema hljómuðu í bakgrunni.
Sýningin verður opin til 20. desember á þeim tíma sem skólinn er opinn. Á veggjum ganga og kennslustofa gefur að líta málverk og ljósmyndir af öllum stærðum og gerðum, allt frá sjálfsmyndum upp í altaristöflur. Reyndar var það svo að veggpláss skólans var ekki nóg og negla þurfti fyrir nokkra glugga til að auka veggrými. Á laugardag gátu gestir einnig sest niður á nokkrum stöðum, fengið sér kaffi og ástarpunga og horft á nokkrar stuttmyndir sem nemendur höfðu gert í upplýsinga- og tæknimennt og ensku.
Myndir má sjá hér.
Heimild: www.mtr.is