Rúmlega 51.500 erlendir ferðamenn fóru frá landinu í september, samkvæmt talningum Ferðamálastofu eða tæplega 11 þúsund fleiri en í september á síðasta ári. Þetta er rúmlega 26 prósent fleiri ferðamenn en í sama mánuði í fyrra.

Aldrei hafa fleiri erlendir ferðamenn verið hér á landi í september frá upphafi mælinga. Það sem af er ári hafa 458 þúsund erlendir ferðamenn farið frá landinu eða jafnmargir og allt árið 2010. Um 62 þúsund fleiri ferðamenn hafa komið til landsins frá áramótum, en á sama tímabili í fyrra, eða tæplega fimmtungi fleiri.

Frá áramótum hafa rúmlega 260 þúsund Íslendingar farið utan, 19 prósent fleiri en á sama tímabili í fyrra þegar brottfarir mældust tæplega 219 þúsund.

Rúv.is greinir frá.