Fjárskaði í Skagafirði eftir óveðrið í september virðist minni en menn óttuðust í fyrstu. Leiðbeiningastöð bænda í Skagafirði hefur nú tekið saman upplýsingar um tjónið og sent Bjargráðasjóði.

Í fyrstu var óttast að um 4.000 til 5.000 fjár hefði drepist eða týnst en nú er ljóst að um 3.500 kindur skiluðu sér ekki af fjalli. Eiríkur Loftsson, ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Skagafjarðar, segir að þegar tekið sé tillit til eðlilegra vanhalda megi áætla að um 1.500 til 1.700 kindur hafi drepist eða týnst í áhlaupinu í Skagafirði.

Fjárskaðinn er mismikill eftir bæjum og svæðum en bændur í gamla Lýtingsstaðahreppi urðu verst úti.

Heimild: ruv.is