Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar var samþykkt á aukafundi bæjarstjórnar þann 14. desember sl. Helstu markmið með fjárhagsáætlun ársins eru að vernda grunnþjónustu ásamt því að rekstur bæjarfélagsins sé góður og fjárhagsstaða sveitarfélagsins haldist áfram sterk.

Bæjarráð samþykkti fyrr í vetur fjárhagsramma fyrir hvern málaflokk. Fagnefndir ásamt deildarstjórum viðkomandi málaflokka hafa svo unnið að því ná þeim markmiðum sem sett voru með fjárhagsrammanum. Óhætt er að segja að sú vinna hafi gengið vel og í flestum tilfellum var markmiðum náð.

Miklar framkvæmdir einkenna þessa fjárhagsáætlun, en gert er ráð fyrir að framkvæmt verði fyrir 295 milljónir króna á árinu 2012. Þar vega þyngst 175 milljónir króna sem varið verður til viðbyggingar við Grunnskólann í Ólafsfirði. Til viðhaldsverkefna verður varið rúmlega 26 milljónum króna.

Álagningastofnar fyrir árið 2012 verða óbreyttir frá fyrra ári en gjaldskrár taka nokkrum breytingum sem fyrst og fremst eru verðlagsbreytingar.

Mikill samdráttur í framlögum jöfnunarsjóðs hefur aukið á vanda við gerða fjárhagsáætlunar en þau eru áætluð 247 milljónir króna á næsta ári. Til samanburðar þá voru þessi framlög á árinu 2008, á verðlagi nú, um 523 milljónir króna. Það lætur nærri að munurinn nemi öllu framkvæmdafé bæjarins á því mikla framkvæmdarári sem senn fer í hönd.

Heildartekjur A og B – hluta eru áætlaðar 1.672 milljónir króna og áætlað er að rekstrarniðurstaða verði jákvæð um 10 milljónir króna.

Það verður krefjandi verk fyrir bæjarfulltrúa, nefndarfólk og starfsmenn Fjallabyggðar að fylgja eftir fjárhagsáætluninni. Ég er þess fullviss að hópurinn sem vann að þessari áætlunargerð mun leggja sig fram um að svo verði.

Svo skrifar, Ólafur Helgi Marteinsson, Fjallabyggð.