Á 223. fundi bæjarstjórnar þann 15. desember 2022 fór fram seinni umræða um fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2023. Var áætlunin samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.
Sigríður Guðrún Hauksdóttir forseti bæjarstjórnar Fjallabyggðar lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd bæjarstjórnar:
Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar 2023 tekur mið af þeim efnahagslega veruleika sem nú blasir við sveitarfélögum og landsmönnum. Markmið nýrrar bæjarstjórnar hefur verið í samvinnu við starfsfólk sveitarfélagsins að leita allra leiða til þess að halda óskertu þjónustustigi við íbúana og auka það sem því var við komið.
Í fjárhagsáætluninni var einnig lagt mikið kapp á að lágmarka áhrif mikilla kostnaðarhækkana í samfélaginu á íbúa Fjallabyggðar.
Mikil umræða hefur verið um hækkun fasteignaskatta í samfélaginu sökum mikillar hækkunar fasteignamats á landinu öllu. Í fjárhagáætluninni er lagt til að fasteignaskattur, holræsagjald og vatnsgjald verði lækkuð til þess að koma til móts við miklar hækkanir á fasteignamati, ásamt því að afsláttur á fasteignaskatti hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum verður hækkaður.
Gjaldskrár sveitarfélagsins hækka að mestu leyti í takt við þjóðhagsspá Hagstofunnar fyrir árið 2023, eða um 7%. Undanfarin ár hafa gjaldskrár sem snerta barnafólk og viðkvæma hópa verið stillt í hóf en nú verður ekki hjá því komist að hækka þessa gjaldskrár og ætti þessi óhjákvæmilega hækkun ekki að rýra samkeppnishæfni Fjallbyggðar gagnvart öðrum sveitarfélögum. Frístundastyrkur fyrir börn 4 – 18 ára mun hækka um 5.000 kr og verða 45.000 kr, og áfram verður haldið að efla frístund í góðu samstarfi við íþróttarfélögin.
Nágrannasveitarfélög okkar hafa víðast hvar verið að boða meiri hækkanir en þær sem boðaðar eru í fjárhagsáætlun 2023 hjá Fjallabyggð. Hér munu íbúar Fjallabyggðar njóta þess að rekstur sveitarfélagsins hefur á síðustu árum verið ábyrgur og því er fjárhagsleg staða Fjallabyggðar mjög sterk.
Á vettvangi sveitarfélagsins er unnið mjög mikilvægt starf í þjónustu við íbúanna og svo mun áfram verða. Áfram verður unnið að verkefninu Sveigjanleg dagdvöl af fullum krafti og þar mun Fjallabyggð taka þátt í að þróa ramma að framtíðar fyrirkomulagi samhæfðar þjónustu við eldra fólk ásamt því að áfram verður unnið að Heilsueflandi samfélagi og í anda þess verður áfram gjaldfrjálst í sund og rækt fyrir eldri borgara og öryrkja.
Á þessu ári sem senn er á enda var opnuð ný og glæsileg félagsmiðstöð Neon og mun það verða eitt af verkefnum ársins 2023 að tryggja að þessi nýja og glæsilega aðstaða verði nýtt vel með það að markmiði að efla félagslíf yngri íbúa sveitarfélagsins.
Þegar kemur að fjárfestingum, sem eru áætlaðar um 308 milljónir króna, þá verður dregið úr fjárfestingum samanborið við fyrra ár, en á sama tíma er verið að auka fjármagn til viðhaldsverkefna. Það er mat bæjarstjórnar Fjallabyggðar að mikilvægara sé að ná enn betur utan um fyrri fjárfestingar ásamt því að marka fjárfestingastefnu sveitarfélagsins í innviðum til framtíðar.
Að lokum vill forseti, fyrir hönd bæjarstjórnar, koma á framfæri þökkum til bæjarstjóra, nefndarmanna og starfsmanna sveitarfélagsins fyrir þeirra aðkomu að gerð fjárhagsáætlunar og ánægjulegs samstarfs og óskar íbúum Fjallabyggðar gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.