Fiskey á Hjalteyri hefur verið útskurðuð gjaldþrota, en hún er eina fyrirtæki landsins sem framleiðir lúðuseiði og hefur verið í fararbroddi á því sviði á heimsvísu.

Fiskey var stofnuð árið 1987 og hefur að meðaltali framleitt um 400 þúsund lúðuseiði á ári en framleiðslan fór þó upp í 800 þúsund árið 2003 en þá var fyrirtækið að framleiða hátt í helming allra lúðuseiða í heiminum. Að sögn Arnars Freys Jónssonar, framvkæmdastjóra Fiskeyjar, hefur Fiskey glímt við framleiðslubrest í þrjú ár með tilheyrandi tekjumissi. Fyrirtækið reyndi að fá inn nýtt hlutafé en tókst ekki og því var það lýst gjaldþrota fyrir helgi.

Arnar segir að þrátt fyrir ógrynni rannsókna í samstarfi við innlendar og erlendar rannsóknarstofur hafi engar haldbærar skýringar fengist á því hvers vegna seiðaframleiðslan hafi ekki verið með þeim hætti sem hún var áður. Hann segist vona að einhverjir sýni lúðueldinu áhuga og nái að leysa framleiðsluvandamálin enda liggur mikil þekking hjá fyrirtækinu sem hefur verið í fremstu röð á sínu sviði í heiminum frá stofnun.

“Maður vonar nú að það sjái einhver tækifæri í fiskeldi hérna,” segir Arnar Freyr. “Eyjafjörðurinn er algjörlega vannýttur í fiskeldi. Það eru mikil verðmæti í klakfiskinum sem við erum með, við erum búnir að vera að byggja hann upp í mörg ár. Það tekur 10 ár fyrir lúðu að verða kynþroska og verða nýtilegan klakfisk.”

Rúv.is greinir frá.