Fiskbúð Fjallabyggðar opnaði nýlega í húsnæði Fiskbúðar Siglufjarðar við Aðalgötuna, en Eysteinn Aðalsteinsson sem hafði staðið vaktina í tæp 40 ár og seldi húsnæðið og reksturinn til hjónanna Hákons Sæmundssonar og Valgerðar Þorsteinsdóttur. Þau gerðu upp húsnæðið að innan og opnuðu glæsilega fiskbúð á dögunum. Hákon var áður yfirkokkur á Bautanum á Akureyri en það var langþráður draumur þeirra hjóna að eiga eigið fyrirtækið. Valgerður er Ólafsfirðingur og Hákon á ættir sínar að rekja til Siglufjarðar en þau búa nú í Ólafsfirði ásamt fjórum sonum sínum, sá yngsti Friðrik Hugi er með þeim á myndinni.
Fréttamaður Héðinsfjarðar fékk að vita aðeins meira um þennan nýja rekstur í Fjallabyggð.
Hvernig kom það til að þið fóruð út í að stofna Fiskbúð Fjallabyggðar? Okkur fannst þetta kjörið tækifæri og eitthvað sem vantaði hér á Siglufirði. Okkur langaði að viðhalda því að vera með fiskbúð hér í þessu húsnæði þar sem þetta er að öllum líkindum elsta fiskbúð á landinu á sama stað.
Hvað tók það langan tíma að gera þær breytingar sem þurfti að gera á húsnæðinu? Fyrirhugað var að eyða rétt um mánuði í þær breytingar sem okkur langaði að gera en þetta tók allt í allt einn og hálfan mánuð. Um leið og við tókum eina fjöl þá urðu þær þrjár og svo koll af kolli.
Hvernig hafa móttökurnar verið fyrstu dagana og vikur? Þær hafa verið ljómandi góðar. Erum mjög ánægð með móttökurnar sem við höfum fengið. Bæjarbúar virðast vera mjög ánægðir með þetta.
Hvaða nýjungar bjóðið þið uppá sem ekki var áður? Búðin hjá Eysteini var af gamla skólanum eins og við segjum, fiskur í flökum og þessar fáu sortir sem hafa verið í fiskbúðum í gegnum árin. Við leggjum áherslu á fiskrétti og marineraðan fisk sem er tilbúinn í ofninn í 15 mín. Við teljum okkur vera að höfða meira í dag til yngri kynslóðarinnar líka.
Vinni þið hjónin bæði eða skiptið þið vöktum? Ég og Hákon er við í búðinni allan daginn, Gerða lítur við annað slagið. Við erum með einn 6 mánaða gaur sem þarf á mömmu sinni mikið að halda.
Hvað störfuðuð þið við áður en þið stofnuðuð Fiskbúð Fjallabyggðar? Hákon var yfirkokkur á Bautanum Akureyri.
Er breytilegt milli daga hvað er í boði í fiskborðinu? Í grunninn reynum við að hafa nokkra fasta rétti í einhvern ákveðinn tíma, og bætum svo einum og einum inn þess á milli. Einnig erum við með þessar sígildu tegundir, gellur, siginn fisk,saltfisk, reykta ýsu og þess háttar.
Björn Valdimarsson tók myndina og er hún birt hér með góðfúslegu leyfi hans.