Síðastliðna helgi var sveinspróf í vélvirkjun í húsakynnum Verkmenntaskólans á Akureyri. Fimm þreyttu prófið, allir fyrrverandi nemendur í skólans.  Prófið skiptist í skriflegt próf, smíðaverkefni, bilanaleitarverkefni, slitmælingaverkefni, suðuverkefni, frágang smíðaverkefnis og vinnuhraða við smíðaverkefnið.

Í skriflega prófinu var spurt út í vélar, loft og vökvakerfi, frystikerfi, öryggisfræði, suðu og lóðningar og verkáætlanir auk almennra spurninga.

Í smíðaverkefninu var látið reyna á hæfni og nákvæmni í meðferð handverkfæra, mælitækja, lestur teikninga og vélavinnu.

Í bilanaleit var sett upp bilun í díselvél þar sem verkefni próftaka var að finna hana, framkvæma viðgerð og gera skýrslu um hana.

Í slitmælingu voru ýmsir hlutir í díselvél mældir og metið hvort þeir væru í lagi eða hvort þyrfti að skipta um þá – og skrifuð skýrsla um verkefnið.

Í suðuverkefni voru prófaðar flestar algengustu suðuaðferðir á járni, kopar, áli, steypujárni og ryðfríu stáli ásamt kveikingu. Einnig var prófað í logskurði.

Hluti af prófinu var vinnuhraði, sem stendur sem sjálfstæð einkunn á einkunnablaðinu.