Nú við áramót hefur þeim merka áfanga verið náð  í annað sinn í sögunni að ekkert banaslys hefur orðið meðal íslenskra sjómanna á árinu sem er að líða. Síðast gerðist það árið 2008. Ljóst er að öryggi íslenskra sjómanna hefur aukist til mikilla muna sem og öryggisvitund þeirra, sem hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu áratugum. Má með sanni segja að starf Slysavarnaskóla sjómanna í fræðslu til sjómanna um öryggismál hafi þar en og aftur sannað mikilvægi sitt.

Öllum sjómönnum er skylt að sækja öryggisfræðslu eigi sjaldnar en á fimm ára fresti og er árangurinn vel sýnilegur á þessum tímamótum. Á árinu sem er að líða varð metþátttaka í námskeiðum við Slysavarnaskóla sjómanna en þá sóttu 3.112 manns námskeið við skólann en fyrra met var 2.300. Má rekja þessa aukningu til gildistöku öryggisfræðsluskyldu til handa sjómönnum á smábátum.

Heimild: Landsbjörg.is