Mikið er lagt upp úr því af hálfu sveitarstjórnarmanna í Skagafirði að áætlunarflug til Sauðárkróks hefjist að nýju sem fyrst og hafa viðræður farið fram milli þeirra aðila sem að því koma. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur sýnt málinu áhuga og segist vera að skoða það frá öllum hliðum.

-Það kom mér á óvart að flugið stöðvaðist eftir innspýtingu í lokafjárlögum en er nú að skoða alla valkosti í stöðunni, segir Ögmundur sem ekki gat tjáð sig um málið að öðru leyti að svo stöddu. Ögmundur segist hafa fundið fyrir áhyggjum og þrýstingi af hálfu heimamanna og málið verði skoðað frá öllum hliðum.

Stefán Vagn Stefánsson forseti sveitarstjórnar Skagafjarðar segir að hart sé unnið í málinu og hreyfing sé komin á það. Finna þurfi lausn á því sem fyrst, helst í næstu viku.

Ekki er laust við að heimamenn hafi áhyggjur af því að ekki er flogið á Krókinn en frá áramótum er ekkert áætlunarflug á Norðurland vestra sem varla getur talist viðunandi að mati flestra.

Heimild: Feykir.is