Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Dalvík/Reyni í 6. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla. Leikurinn fór fram á Dalvíkurvelli í gær. Það eru ChitoCare Beauty og Siglufjarðar apótek sem eru aðalstyrktaraðilar að allri umfjöllun um KF í sumar.

KF höfðu byrjað mótið erfiðlega og ekki sótt stig í fyrstu 5 umferðum áður en að þessum nágrannaslag kom. Í þessum leikjum liðanna er barist um hvern bolta og allt sett í sigurinn fram á síðustu andartökin, og þannig var það einnig í þessum leik.

Dalvíkingar höfðu byrjað Íslandsmótið ágætlega og aðeins tapað einum leik af fyrstu fimm.  Borja Laguna byrjaði leikinn óvænt á bekknum hjá D/R en það hefur verið þeirra besti maður undanfarin ár.

Hjá KF var Sævar Þór Fylkisson loksins kominn í byrjunarliðið.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og góður stuðningur úr stúkunni. Það var KF sem setti fyrsta mark leiksins þegar Sævar Þór Fylkisson skoraði örugglega úr víti í uppbótartíma.  Staðan 0-1 fyrir gestina í hálfleik.

Þjálfari Dalvíkur gerði tvöfalda skiptngu þegar um 30 mínútur voru eftir af leiknum og kom Borja Laguna inná ásamt Aroni Sverrissyni.

Allt kapp var lagt í að jafna leikinn hjá heimamönnum. Það var Áki  Sölvason sem kom með jöfnunarmarkið á 80. mínútu en hann hafði komið inná sem varamaður nokkrum mínútum áður. Staðan 1-1 og rúma 10 mínútur eftir af leiknum.

Þjálfari KF gerði skiptingu skömmu eftir jöfnunarmarkið og kom Rúnar Freyr Egilsson inná fyrir Marinó Birgisson.

Kári Gautason fékk sitt annað gula spjald á 90. mínútu og léku heimamenn manni færri síðustu mínútur leiksins.

KF hélt áfram að sækja til sigurs og freista þess að ná fram sigri.

Sævar Þór Fylkisson var hetja KF manna í þessum leik og gerði hann lokamarkið á síðustu andartökum leiksins eða á 95. mínútu í uppbótartíma.  Staðan orðin 1-2 fyrir gestina í blálokin og dómarinn flautaði skömmu síðar.

Frábær útisigur hjá KF og fyrsti sigurinn á Íslandsmótinu kominn í hús. Liðið er þó enn í neðsta sæti deildarinnar og mikið verk fyrir höndum.

 

 

Það eru tveir frábærir styrktaraðilar sem gera okkur kleyft að halda úti öflugri íþróttaumfjöllun í Fjallabyggð og styðja nú við umfjöllun um alla leik KF í deild og bikar í sumar.

Takk Siglufjarðar Apótek og ChitoCare beauty.