Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, heimsótti í vikunni nema og kennara í nýju diplómanámi á sviði farsældar barna við Háskóla Íslands. Viðbrögðin hafa verið vonum framar og eru alls 127 skráðir í námið.
Nemendur koma víðsvegar að af landinu. Þetta eru leik- og grunnskólakennarar, þroskaþjálfar, félagsráðgjafar, iðjuþjálfar, fólk með grunnmenntun í sálfræði, uppeldis- og menntunarfræði og lögfræði. Stærsti hluti þeirra starfar í leik- og grunnskólum og allmargir í félagþjónustu og barnavernd. Hluti starfar í frístund og í sérhæfðum úrræðum og í hópnum eru einnig nokkrir stjórnendur í skóla- og velferðarþjónustu.
„Námið hefur laðað að stóran og fjölbreyttan hóp einstaklinga sem eru í framlínuþjónustu við börn. Margir leggja mikið á sig til að stunda námið, eru í fullu starfi og ferðast um langan veg til að sækja námið. Markmið farsældarlaganna er að samþætta þjónustuna og þarna er kominn sameiginlegur lærdómsvettvangur til að fræðast, skiptast á skoðunum og deila reynslusögum,“ segir Ásmundur.
Nýtt diplómanám á sviði farsældar barna er nú kennt í fyrsta skipti þennan vetur við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Námið er þverfaglegt og því er ætlað að styðja við innleiðingu nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna með því að veita nemendum þekkingu á barnamiðaðri nálgun, samþættingu þjónustu, hlutverkum tengiliða og málstjóra auk mælinga á árangri. Færni í teymisvinnu og þverfaglegri samvinnu verður í forgrunni með áherslu á fyrsta stigs þjónustu við börn, þ.e. grunnþjónustu.
Nýja diplómanámið byggir á samstarfssamningi sem Ásmundur Einar Daðason, þáverandi félags- og barnamálaráðherra og núverandi mennta- og barnamálaráðherra, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu 22. september 2021. Samningurinn var um að Háskóli Íslands setji á laggirnar tvær tímabundnar lektorsstöður við Félagsráðgjafardeild skólans til þriggja ára í því skyni að efla kennslu og rannsóknir vegna nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.