Skipulagsstofnun hefur skoðað deiliskipulagið við Snorragötu á Siglufirði að nýju og telur að með skýrari skilmálum um takmörkun á veitingu byggingarleyfa sé hægt að uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 505/2000, sbr. einnig gr. 3.1.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.
Til þess þarf sveitarstjórn Fjallabyggðar að taka deiliskipulagið til umræðu á nýjan leik.
Bæjarráð Fjallabyggðar hefur lagt til breytingar á auglýstri tillögu að deiliskipulagi Snorragötu, settar fram á uppdrætti og í greinargerð, dags. 7. júní 2011, breytt 2. sept. 2011 og í greinargerð með sömu dagsetningum.
Í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, samþykkir bæjarráð Fjallabyggðar í umboði bæjarstjórnar Fjallabyggðar, deiliskipulagið með áorðnum breytingum frá 2. sept. 2011, nema hvað orðalagi í kafla 5.3. um húsagerðir á bls. 16 skal breytt á eftirfarandi hátt:
- 5.3. Húsagerðir
- H1 – Hótelbygging að hámarki 5.000 m2. Bygging skal vera allt að 2 hæðir og skal hæð þess ekki fara yfir 12 m.
- S1 – Lýsistankur að hámarki 10 m2. Hæð byggingar skal ekki fara yfir 7 m.
- S2 – Þjónustuhús að hámarki 370 m2. Bygging skal vera allt að 2 hæðir og skal hæð þess ekki fara yfir 7,5 m.
- S3 – Þurrkhjallur að hámarki 30 m2. Hæð byggingar skal ekki fara yfir 3 m.
- S4 – Naust að hámarki 60 m2. Hæð byggingar skal ekki fara yfir 5 m.
Í fundargerðinni 9. ágúst kemur einnig fram:
Ekki er gert ráð fyrir fastri búsetu á svæði fyrir þjónustustofnanir.
Ekki er heimilt að veita byggingarleyfi fyrir hótelbyggingu á reit H1 fyrr en endurnýjað hættumat sem heimilar slíka byggingu liggur fyrir, sbr. reglugerð um hættumat vegna ofanflóða og flokkun og nýtingu hættusvæða nr. 505/2000 m.s.br. Þó er heimilt að veita leyfi fyrir hótelbyggingu á þeim hluta byggingarreits sem er innan hættusvæðis B ef byggingin er annað hvort hönnuð til að standast ástreymisþrýsting skv. töflu II í 21gr. (áður 19. gr.) sömu reglugerðar, eða að fyrir liggi ákvörðun sveitarstjórnar um að innan fimm ára verði viðkomandi svæði varið með varanlegum varnarvirkjum skv. staðfestri aðgerðaáætlun um aðgerðir sveitarfélagsins, sbr. 22. gr. (áður 20 gr.) sömu reglugerðar.
Bæjarráð felur deildarstjóra tæknideildar að láta lagfæra deiliskipulags-
gögnin sbr. framangreint, senda Skipulagsstofnun lagfærð og undirrituð gögn og birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.