Dalvíkurvöllur er illa kalinn eftir veturinn og þarf að fara í kostnaðarsamar aðgerðir til að laga völlinn fyrir sumarið. Ljóst er að klakinn hefur legið of lengi á vellinum í vetur þrátt fyrir björgunartilraunir frá sjálfboðaliðum knattspyrnudeildar Dalvíkur/Reynis í vetur og vor. Dalvík/Reynir leika fyrst tvo útileiki áður en kemur að fyrsta heimaleiknum þann 26. maí. Ólíklegt þykir að völlurinn verði kominn í stand fyrir þann tíma. Til stendur að sá fræjum í völlinn og setja sand og áburð ásamt því að vökva völlinn.
