Dalvík/Reynir og KV mættust á Dalvíkurvelli í 8. umferð Íslandsmótsins í 2. deildinni í gær.

Toni Tipuric braut ísinn fyrir D/R og skoraði á 31. mínútu, hans fyrsta mark í deildinni. Gestirnir fengu vítaspyrnu nokkrum mínútum fyrir leikhlé og skoraði Ingólfur Sigurðsson úr henni og jafnaði leikinn í 1-1. Þannig var einnig staðan í hálfleik.

Dalvík/Reynir komu ákveðnir til leiks og skoruðu strax á 46. mínútu og var það Áki Sölvason sem var sjóðheitur í leiknum. Áki skoraði svo aftur tvö mörk með skömmu millibili en staðan var orðin 3-1 á 64. mínútu og 4-1 á 69. mínútu. Frábær þrenna hjá Áka sem fékk svo heiðursskiptingu.

KV missti leikmann af velli á 74. mínútu og léku einum færri það sem eftir lifið leiks.

Bæði lið gerðu þrefaldar skiptingar á 80. mínútu, en lokamark leiksins átti Tómas Þórðarson fyrir D/R og var staðan orðin 5-1 á 83. mínútu en hann hafði komið inná sem varamaður á 69. mínútu.

Lokatölur 5-1 á Dalvíkurvelli fyrir heimamenn.

Næsti deildarleikur D/R verður gegn ÍR á Dalvíkurvelli, sunnudaginn 25. júní kl. 16:00.