Fyrsti leikur Dalvíkur/Reynis á Íslandsmótinu í knattspyrnu í Lengjudeildinni fór fram á Dalvíkurvelli í dag. Eyjamenn voru í heimsókn og stilltu bæði félögin upp sterkum liðum.

Fyrri hálfleikur var fjörugur og byrjaði Dalvík/Reynir leikinn vel og skoraði Abdeen Abdul strax eftir fjórar mínútur. Hann er nýkominn til liðsins og hafði áður leikið einn leik í Mjólkurbikarnum. Abeeden skoraði sitt annað mark á 15. mínútu og kom heimamönnum í 2-0. Frábær byrjun á leiknum.

Eyjamenn minnkuðu muninn á 22. mínútu með marki úr vítaspyrnu og var staðan því 2-1. Það var líka hart tekist á í fyrri hálfleik og gaf dómarinn gult spjald til fimm leikmanna. D/R leiddi 2-1 í hálfleik.

ÍBV gerði tvær skiptingar snemma í síðari hálfleik og fóru tveir leikmenn útaf sem voru komnir á gult spjald.

Borja Laguna skoraði á 69. mínútu og kom D/R í góða stöðu 3-1. Fleiri mörk voru ekki skoruð og vann Dalvík/Reynir frábæran sigur á Eyjamönnum og eru komnir með þrjú stig í pottinn.