Dalvík/Reynir mætti Elliða í 3. deild karla í knattspyrnu á Dalvíkurvelli í dag. Elliði var í 4. sæti deildarinnar fyrir þennan leik en D/R voru í 8. sæti eftir basl í síðustu umferðum. Strákarnir á Dalvík voru staðráðnir í að selja sig dýrt í þessum leik og komast ofar í töfluna. Elliði hafði unnið fyrri leik liðanna í sumar 3-1 á sínum heimavelli.

Númi Kárason kom heimamönnum yfir á 13. mínútu leiksins, og var D/R komið í 1-0. Á 31. mínútu jöfnuðu gestirnir í 1-1.Aaron Akyeampng-Ekumah kom D/R aftur yfir á 44. mínútu og Kristinn Rósbergsson kom þeim í 3-1 í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Heimamenn fóru því með góða stöðu inn í búningsklefann í hálfleik. Kristinn Rósbergsson kom D/R í 4-1 á 58. mínútu, og staðan var orðin góð þegar tæpur hálftími var eftir af leiknum.

Þjálfari D/R gerði svo þrefalda skiptingu á 67. mínútu. Á sömu mínútu skoruðu gestirnir aftur og var staðan skyndilega orðin 4-2. Elliði missti svo mann af velli með rautt spjald á 76. mínútu, sem gerði þeim erfitt fyrir.

Þjálfari D/R gerði aftur skiptingu og sendi tvo spræka menn inná þegar tæpar 10 mínútur voru eftir af leiknum.

Lokatölur urðu 4-2 fyrir Dalvík/Reyni í þessum fjöruga leik.

D/R eru í 7. sæti með 29 stig eftir þennan sigur þegar einn leikur er eftir af mótinu. Liðið getur komist í 6. sæti ef liðið vinnur í lokaumferðinni.