Dalvík/Reynir keppti á móti KFS á Dalvíkurvelli í dag í 17. umferð Íslandsmótsins. Heimamenn þurftu sigur til að halda sér á toppnum en KFS var í 5. sæti deildarinnar, nokkuð á eftir efstu fjórum liðunum. Spennan á toppnum minnkaði ekki eftir umferðina og eru fjögur lið sem gera sig líkleg til að enda í efstu tveimur sætum deildarinnar. KFS vann fyrri leik liðanna 2-0 á Hvolsvelli í byrjun sumars og var því reiknað með jöfnum leik.

Heimamenn komu ákveðnir til leiks eftir tap gegn Sindra í síðustu umferð.  Dómarinn dæmdi vítaspyrnu strax á 2. mínútu leiksins og skoraði Borja Laguna úr henni og kom D/R yfir strax í byrjun. D/R skorað aftur eftir rúman hálftíma leik þegar Malakai skoraði sitt fyrsta mark fyrir liðið í hans fimmta leik. Staðan var 2-0 fyrir heimamenn þegar dómarinn flautaði til hálfleiks.

Borja Laguna skoraði sitt annað mark fyrir D/R á 53. mínútu og kom heimamönnum í góða stöðu, 3-0 í upphafi síðari hálfleiks.

Viktor Daði og Jóhann Örn voru settir inná þegar tæpur hálftími var eftir af leiknum. Halldór Jóhannesson skoraði fjórða mark D/R á 69. mínútu og var staðan orðin 4-0.

Þjálfari D/R gerði svo þrefalda skiptingu á 75. mínútu, en loka mark leiksins kom á 86. mínútu þegar Þröstur Jónasson skoraði. Lokatölur 5-0 og er Dalvík/Reynir í 2. sæti 3. deildar eftir 17 leiki.