Dalvík/Reynir mætti Ými í 32 liða úrslitum í nýrri bikarkeppni neðri deilda sem ber nafnið Fótbolti.net Bikarinn. Leikurinn fór fram Kórnum í Kópavogi á heimavelli Ýmis. Ýmir leikur í 3. deildinni og er þar neðarlega á meðan D/R leikur í 2. deildinni og hafa farið ágætlega af stað í upphafi móts.
D/R fékk víti strax á 4. mínútu og skoraði Þorvaldur Daði Jónsson úr því. Ýmir komst inn í leikinn rúmum 20 mínútum síðar þegar Tómas Þórðarson gerði sjálfsmark. Staðan orðin 1-1 eftir 25 mínútur í þessum fjöruga leik. Ýmir komst yfir á 40. mínútu og var yfir í leikhlé 2-1.
Þjálfari Dalvíkur gerði eina breytingu í hálfleik, en heimamenn komu öflugir til leiks og skoruðu strax á 48. mínútu og voru komnir í góða stöðu 3-1. Ansi óvænt staða í leiknum.,
Dalvík gerði þrefalda skiptingu á 65. mínútu og komu öflugir leikmenn inná til að reyna snúa leiknum við.
D/R fékk annað víti á 82. mínútu og aftur skoraði Þorvaldur Daði Jónsson og minnkaði muninn í 3-2.
Fleiri urðu mörkin ekki og landaði Ýmir þessum góða bikarsigri og eru þeir komnir í 16. liða úrslit en Dalvík er úr leik.
Dalvík leikur við ÍR á Dalvíkurvelli, sunnudaginn 25. júní kl. 16:00 og má búast við hörku leik.