Dalvík/Reynir mætti Vængjum Júpiters á Dalvíkurvelli í kvöld í 12. umferð Íslandsmótsins. Vængirnir voru í neðri helmingi deildarinnar fyrir leikinn en heimamenn gátu komist aftur í toppbaráttuna, í það minnsta tímabundið. D/R vann fyrri leik liðanna í vor 0-2 á útivelli.

D/R byrjuðu leikinn vel og voru komnir í 3-0 eftir 23. mínútur með mörkum frá Viktori Daða og tvö frá Jóhanni Erni. Staðan var því 3-0 í hálfleik og mikil brekka fyrir gestina í síðari hálfleik

Vængirnir minnkuðu muninn í 3-1 þegar tæpar 30 mínútur voru eftir af leiknum og fengu smá líflínu.

Dalvík gerði fjórar skiptingar á 20 mínútna kafla og voru komnir með ferska menn inná.

Heimamenn keyrðu hreinlega yfir Vængina á lokamínútum leiksins og skoruðu þrjú mörk á þremur mínútum með mörkum frá Kristjáni Erni sem gerði tvö og Jóhann Örn sem innsiglaði þrennuna sína í leiknum.

Lokatölur á Dalvíkurvelli voru 6-1 og frábær sigur hjá heimamönnum.