Það var mikil dramatík á Dalvíkurvelli þegar Dalvík/Reynir og Þróttur Vogum mættust í 18. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu. Dalvík hefur leikið vel allt tímabilið og og voru í efsta sæti deildarinnar að loknum 17 leikjum. Þróttarar hafa einnig verið í toppbaráttunni og var því reikna með jöfnum leik.
Það voru gestirnir sem byrjuðu vel og skoruðu strax á 21. mínútu. Tveimur mínútum síðar fékk Borja Laguna beint rautt spjald hjá D/R og léku þeir einum færri það sem eftir var leiksins.
Staðan var 0-1 fyrir Þrótt í hálfleik.
Þjálfari D/R gerði tvöfalda skiptingu á 70. mínútu og fóru hlutirnir að ganga betur eftir það. Aron Máni Sverrisson kom inná fyrir Gunnlaug Ingvarsson og Þorvaldur Daði Jónsson kom inná fyrir Rúnar Björnsson.
Aðeins tveimur mínútum síðar kom jöfnunarmarkið frá Áka Sölvasyni, staðan orðin 1-1 og um 20 mínútur eftir.
Gestirnir gerðu þrjár skiptingar skömmu eftir markið.
D/R sóttu í sig veðrið í síðari hálfleik og komust yfir á 83. mínútu þegar Sigfús Gunnarsson skoraði. Staðan skyndilega orðin 2-1 og skammt eftir. Áki Sölvason skoraði sitt annað mark aðeins fimm mínútum síðar og kom D/R í 3-1. Tíunda mark Áka í deildinni í sumar. Frábært tímabil hjá honum.
D/R gerði tvöfalda skiptingu í uppbótartíma og kom Jóhann Örn og Viktor Daði inná fyrir Sigfús og Florentin.
Fleiri mörk voru ekki skoruð og vann D/R frábæran sigur 3-1 á þessum sterka heimavelli.
Dalvík/Reynir er nú með þriggja stiga forskot á KFA þegar fjórir leikir eru eftir.